143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Mig langar gjarnan að hæstv. utanríkisráðherra sitji hér á ráðherrabekk ef hann vildi vera svo vænn. Ég sé að hann hlýðir mér. Ég vil nefnilega beina orðum mínum sérstaklega til hans vegna þess að aldrei þessu vant eigum við eitthvað sameiginlegt þótt við séum hvort í sínum flokknum og þar á meðal er að við teljum bæði að hagsmunum okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Ég tel þá þingsályktunartillögu sem hann leggur fram stórhættulega, eins og málið er að þróast, fyrir þau okkar sem teljum hagsmunum okkar betur borgið utan ESB þar sem alltaf eykst hin villandi umræða um kosti og galla þess að vera í sambandinu. Menn draga upp ansi sterka glansmynd af því hvernig innganga í Evrópusambandið gæti bjargað okkur sem þjóð og gert hér allt betra og fegurra. Ég held að það verði með einhverju móti að koma þeirri umræðu í heilbrigðari farveg og sá heilbrigði farvegur tel ég vera að við tökum þjóðina með okkur í þá vegferð og förum rétta leið, förum ekki þá fjallabaksleið að slíta viðræðunum núna.

Ég taldi ekki rétt að fara út í aðildarviðræður á sínum tíma, í kjölfar hrunsins. Ég taldi það arfavitlaust en ég ræð ekki ein. Ég taldi að við ættum ekki að fara í viðræður en niðurstaða samningaviðræðna milli Vinstri grænna og Samfylkingarinnar varð sú að það var gert. Þannig er við stjórnarmyndunarviðræður að menn geta ekki náð öllu sínu fram og verða alltaf að láta undan í einhverjum málum, eins og menn þekkja. Þessi vegferð varð veruleiki og farið var af stað sem hefur auðvitað kostað fjármuni en líka upplýst okkur um kosti og galla veru í ESB, þó ekki um stærstu þættina sem eru umdeilanlegastir gagnvart sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og fjárfestingum erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi og innflutningi á lifandi dýrum og plöntum og öðru því um líku, það stendur eftir. Mér finnst mjög skynsamleg nálgun að klára viðræðurnar, leggja niðurstöðuna síðan fram og taka rökræðuna, þegar allt liggur fyrir, með og á móti. Ég held að við sem höfum vissulega mótaðar skoðanir í þeim málum höfum mjög góðan málstað að verja þegar allt liggur fyrir. Það verður ekkert erfitt, tel ég, fyrir okkur öll sem erum þeim megin, að rökstyðja að hagsmunum okkar sé betur borgið utan ESB þegar við vegum það og metum. Vissulega er margt sem er áhugavert og það eru kostir við að ganga í ESB, ég efast ekkert um það. En í mínum huga eru ókostirnir fleiri og vega þyngra fyrir þjóðina.

Mér finnst verið að kynda undir þeirri glansmynd sem fólk dregur upp, ekki aðeins í þessum þingsal heldur úti í þjóðfélaginu og í umræðunni. Mér finnst að við, sem erum ein ríkasta þjóð í heimi og lendum í topp 10 í könnunum varðandi velferð og ríkidæmi þjóða, megum ekki tala þjóðina niður, að hér sé engin framtíð fyrir ungt fólk og gjaldmiðillinn kolómögulegur og allt sé á þennan veg, fyrirtæki sjái enga framtíð hér í landi. Eru þetta ekki allt verkefni fyrir okkur sem fullvalda þjóð að glíma við? Þetta eru verkefni sem við getum vel gert sjálf með löggjöf okkar og beint löggjöf okkar til að mæta eðlilegri framþróun í landinu, breyttum áherslum í atvinnumálum, kröfum ungs fólks um fjölbreyttari atvinnu og meiri menntunarmöguleika. Við getum áfram átt góð samskipti við þjóðir í kringum okkur en verið utan ESB, átt gott samstarf við þjóðir hvort sem það er innan ESB eða utan þeirra í alls kyns samningum sem fullvalda þjóð. Ég tel að eins og málin hafa þróast á Íslandi undanfarin ár eða áratugi, þar sem misskipting eykst í þjóðfélaginu, hafi ekkert með ESB að gera. Það hefur með það að gera að hér hefur því miður ríkt hægri stefna allt of lengi og kökunni er ekki jafnt skipt. Mér finnst einhvern veginn að það sem við getum skrifað á ríkisstjórnir undangenginna ára, afleiðingar stjórnvaldsákvarðana undanfarinna ára, að við kennum því um að við stöndum utan ESB og að þetta hefði orðið allt öðruvísi og hagur okkar miklu betri ef við hefðum verið í Evrópusambandinu. Ég held að það sé mikil villa í hugsun þegar menn hugsa á þann veg. Vissulega eru verkefni fram undan fyrir okkur varðandi gjaldeyrishöftin en gjaldeyrishöftin hverfa ekkert þótt við göngum í ESB. Þau vandamál þurfum við að leysa sjálf og það eru verkefni okkar nú um stundir.

Eins og ég hef nefnt áður í ræðu hefur krónan vissulega verið mælistika á efnahagsstjórn í landinu. Krónan sjálf er ekki vandamálið. Það er hvernig efnahagsstjórn landsins hefur verið í gegnum árin. Krónan er mælistika á hana. Vissulega hefur verið verðbólga hér og það er ekkert til að vera ánægður með. En það hefur líka með það að gera hvernig efnahagsmálum hefur verið stjórnað í gegnum árin. Ef okkur tekst að ná stöðugleika í ríkisbúskapnum og tekst að ná verðbólgunni niður er krónan auðvitað miklu sterkari gjaldmiðill en annars væri. Mér heyrist núna að útvegsmenn séu farnir að kvarta yfir því að krónan sé of sterk og það er líka umhugsunarefni.

Ég tel að við megum ekki í þessari umræðu tala niður okkar ríka þjóðfélag, sem við eigum að vera stolt af, og þau ótal tækifæri og möguleika sem við eigum sem þjóð að halda áfram að byggja ofan á með réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi, því að það eru lykilatriði í því að þjóð geti verið farsæl. Þá vil ég nefna að lýðræði verður þar að vera efst á blaði. Það er út af lýðræðishugsjón sem ég sem Evrópuandstæðingur, ekki andstæðingur Evrópuþjóða, ég vil góða samvinnu þar á milli, en andstæðingur þess að ganga í ESB, segi núna: Nú erum við komin þetta langt. Nú eigum við að ljúka viðræðunum og bera samning undir þjóðina, taka rökræðuna um þann samning, með eða á móti, og láta þjóðina glíma við það að velja sér veg til framtíðar. Ég tel ekkert annað í stöðunni. Ég hvet þess vegna hæstv. utanríkisráðherra til að íhuga vel hvaða málstað (Forseti hringir.) hann vill velja til að halda okkur utan Evrópusambandsins.