143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og fyrir að draga það fram að þessi umræða hefur vakið athygli á þeim miklu kostum sem eru í því fólgnir að gerast aðili að Evrópusambandinu; þeirri fjölbreytni sem því getur fylgt, þeirri erlendu fjárfestingu, þeim kjörum í lánum fyrir fólk og fyrirtæki, auknu frelsi og tækifærum fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu sem í því geta falist. Engu að síður er það álit hv. þingmanns að hagsmunum okkar sé betur borgið utan sambandsins en innan þess og það vekur ákveðnar spurningar.

Þá vildi ég kannski fyrst inna hv. þingmann eftir því hvort það mat hennar byggi á yfirráðum yfir auðlindum landsins og hvort hún mundi styðja aðild að Evrópusambandinu ef yfirráð okkar yfir auðlindunum væru tryggð í aðildarsamningi. Ég vil jafnframt spyrja hv. þingmann — eins og kom fram í ágætri jómfrúrræðu hér í dag hefur pólitíkin í Evrópu löngum snúist um það hvort menn halla sér undir Rússland eða eiga í samstarfi við frjálst lýðræðisríki, hin vestrænu ríki í Evrópu, það er þannig bæði fyrir fall múrsins og eftir fall múrsins — hvort hún telji hagsmunum Íslands betur borgið, eins og virðist vera að gerast í makríldeilunni, með Rússum en ekki með þjóðum meginlandsins og frændum okkar í Noregi.