143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:33]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hennar. Hún er að mörgu leyti góð og ég er mjög ánægður með þá niðurstöðu sem hv. þingmaður hefur komist að varðandi það að fá úr málinu skorið þrátt fyrir að hún sé andstæðingur þess að ganga í Evrópusambandið. Ég held að það sé fyrir henni komið eins og svo mörgum landsmönnum og þá sérstaklega í ljósi atburðarásar síðustu vikna sem við höfum orðið vitni að hér í þinginu, að viðræðusinnunum hefur fjölgað í málinu. Að því leytinu til er það í rauninni hið besta mál að við séum í þessum sporum núna. Það hefur þjappað ákveðnum hópum saman um að reyna að fá niðurstöðu í málinu.

Mig langar aðeins að gera athugasemd við það sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni og mátti heyra enduróm af því í máli hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra í síðustu viku, að það sé allt einhvern veginn á uppleið hér og meira á niðurleið í Evrópusambandinu. Það er reyndar búið að hrekja það, það er hagvöxtur í Evrópusambandinu; 1,5% á þessu ári og gert ráð fyrir 2% á næsta ári. Þar er verðbólgustig náttúrlega á allt öðrum stað en hjá okkur, 0,8%, þannig að ekki er hægt að fullyrða að staðan sé eitthvað verri eða betri en það. Aðalatriðið er, og það sjáum við í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, að það er auðvitað mjög misjöfn staða í ólíkum löndum Evrópusambandsins, þ.e. hvernig fyrir þeim er komið í efnahagsmálum, hagvexti o.s.frv. Ég spyr hv. þingmann: Er það ekki einmitt vitnisburður um að þrátt fyrir ringulreið í Evrópusambandinu þá tryggi efnahagslegt sjálfstæði og fullveldi þjóðanna möguleika á því að hafa það gott og hafa það slæmt?