143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:40]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í þessari umræðu hefur borið við að menn hafi farið nokkuð frjálslega með staðreyndir. Því hefur verið haldið fram að Evrópusambandinu liggi á að fá niðurstöðu í samningaviðræður landanna, þ.e. að skýr skilaboð komi frá Íslendingum um hvernig þeir sjái framhaldið fyrir sér. Meðal annars hefur því verið haldið fram af forustumönnum ríkisstjórnarinnar að þetta sé ástæðan fyrir þeirri þingsályktunartillögu sem við ræðum hér.

Það kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir að þetta skuli vera ein meginröksemdin núna í máli þeirra þegar það liggur fyrir í greinargerðinni sem fylgir þingsályktunartillögunni að þessa er hvergi getið. Það er ekki gert að neinu atriði í greinargerðinni, sem er yfirleitt rökstuðningur mála sem lögð eru fram á þinginu, að verið sé að svara einhverju ákalli Evrópusambandsins. Raunar hafa talsmenn Evrópusambandsins sagt að þessi túlkun forustumanna ríkisstjórnarinnar standist ekki.

Því hefur líka verið haldið fram, eins og ég kom aðeins inn á í andsvari áðan, að allt sé á uppleið á Íslandi en á niðurleið í Evrópusambandinu og þess vegna sé það í sjálfu sér tómt mál að tala um að sækja um inngöngu þangað. Hæstv. forsætisráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Staða efnahagsmála, staða fyrirtækjanna á Íslandi er búin að vera að batna jafnt og þétt síðustu missiri […] á meðan þessi þróun er öll til verri vegar í Evrópusambandinu þannig að það að líta á aðild að Evrópusambandinu sem lausn á þessu öllu skýtur mjög skökku við þegar menn skoða raunveruleikann.“

Á hinum ágæta vefmiðli Kjarnanum var þessi staðhæfing hæstv. forsætisráðherra skoðuð. Niðurstaðan er sú að á evrusvæðinu hefur verið hagvöxtur þrjá ársfjórðunga í röð og hagspár gera ráð fyrir því að hagvöxtur í sambandinu í heild verði 1,5% í ár. Á næsta ári á hann að verða 2%. Evran hefur styrkst um 5% gagnvart dollaranum á liðnu ári. Ársverðbólga er 0,8% og hefur lækkað á milli ára. Viðskiptajöfnuður er meira að segja jákvæður í Grikklandi en það er í fyrsta sinn í 66 ár sem það gerist. Atvinnuleysi hefur lækkað á milli ára og er sem stendur 10,8%. Það er auðvitað mikið en það er ekki hægt að fullyrða að allt sé á uppleið á Íslandi og allt sé á niðurleið í Evrópu.

Því hefur líka verið haldið fram í þessari umræðu að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem við ræddum hér í þarsíðustu viku, hafi leitt það í ljós að ekki væri neinar sérlausnir að sækja í samningaviðræðunum, engar varanlegar undanþágur yrðu og þess vegna væri viðræðunum sjálfhætt. Það er mjög frjálslega farið með staðreyndir þegar menn halda því fram og byggja þá skoðun á skýrslunni. Í skýrslunni eru rakin ótal dæmi um það að sérlausnir hafi verið búnar til í kringum lönd, löggjöf Evrópusambandsins breytt o.s.frv. Ef menn hefðu trú á þeim málstað að ekki væri hægt að ná góðum samningi væri í raun og veru ekkert að óttast fyrir þá sem eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið. Viðræðurnar mundu þá leiða það í ljós og þjóðin mundi fella samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég er hlynntur því að sækja um aðild að Evrópusambandinu, ég hef svona frekar verið hallur undir það að ganga þar inn. Ég byggi þá skoðun mína á fjórum meginröksemdum. Fyrst og fremst er gjaldmiðilsröksemdin. Í öðru lagi er lýðræðishallinn sem felst í því að vera fullvalda þjóð, viðtakandi að löggjöf Evrópusambandsins. Í þriðja lagi er ég ekki bara Íslendingur, ég er Evrópumaður og heimsborgari, og ég er þeirrar skoðunar að vandamál heimsins, mörg hver, verði nær eingöngu leyst á vettvangi ríkjasamstarfs milli frjálsra og fullvalda þjóða en ekki á vettvangi þjóðríkisins. Í fjórða lagi er ég þeirrar skoðunar að við sem evrópsk menningarþjóð eigum að vera þátttakendur í samstarfi þjóða á þessum vettvangi og að okkar rödd sem eylands í miðju Atlantshafi sé gríðarlega mikilvæg í Evrópu og innan Evrópusambandsins.

Mig langar að staldra aðeins við gjaldmiðilsspurninguna. Við í Bjartri framtíð höfum lagt fram tillögu í þinginu um að þjóðin móti sér gjaldmiðilsstefnu. Á Íslandi hefur það verið reynt til þrautar að mínu mati að halda úti sjálfstæðri mynt. Það hefur leitt til þess að við höfum á undanförnum 20 árum verið með verðbólgu upp á 6,2% að meðaltali. Við erum með hærri vexti en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Það er auðvitað vegna þess að við erum með sveiflukenndan gjaldmiðil. Það gerir að verkum að það er áhættusamt að lána í íslenskum krónum og þess vegna eru vextir 1–1,5% hærri hér og hafa verið að jafnaði en í löndunum sem við berum okkur saman við.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi leitt til þess að við erum með mjög óheilbrigðan húsnæðismarkað. Samspil hárra vaxta og verðtryggingar hefur orðið til þess að íslenskir húsnæðiskaupendur horfa ekki til þess að geta greitt upp lánin sem þeir taka. Fólk tekur frekar lán út frá greiðslugrunni því að það veltir fyrir sér hvað það eigi afgangs um hver mánaðamót til að borga af húsnæðisláninu. Menn horfa á greiðslugetu miklu frekar en að geta mögulega frestað lántöku um einhvern tiltekinn tíma vegna þess að vextir muni lækka eða einhverjar breytingar verði sem leiði til þess að þeir geti greitt lánið sitt upp þrem árum fyrr en ella. Því miður er þetta staðreynd og leiddi meðal annars til þeirrar fasteignabólu sem myndaðist hér á árunum 2004–2008 með skelfilegum afleiðingum fyrir fjölda fólks.

Ég er þeirrar skoðunar að besta leiðin fyrir okkur til þess að ná stöðugleika, sem tryggir grundvöll bæði fjölskyldna og fyrirtækja til langs tíma, sé að taka upp annan gjaldmiðil. Með því að tengjast í fyrstu evrusamstarfinu mundum við byrja leiðangur sem leiddi til þess að við gætum á endanum tekið upp evru og búið við stöðugra efnahagslíf. Við gætum fellt niður tollahindranir, glætt þannig samkeppni, búið til heilbrigðara atvinnulíf, fjölgað undirstöðuatvinnuvegum í landinu, búið til meiri samkeppni um vinnuaflið og bætt kjör allra í okkar fína landi.

Það er auðvitað ekki þannig að allt leysist af sjálfu sér við það að ganga í Evrópusambandið. Við erum eins og allar þjóðir sem þar eru, sjálfstæð þjóð og berum ábyrgð á okkur sjálf, berum ábyrgð á efnahagsmálum okkar. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands leiðir það einmitt mjög glögglega í ljós að það er mjög misfarið með þá ábyrgð innan Evrópusambandsins, efnahagsstaða innan landanna er mjög misjöfn, eðlilega, vegna þess að þar er misjöfn pólitík rekin, þar eru ólíkar ákvarðanir teknar og þær eru teknar af sjálfstæðum þjóðum.

Ég er þess vegna mjög andvígur þeirri tillögu sem hér liggur fyrir um að slíta þessum viðræðum, ganga út úr kvikmyndahúsinu áður en endirinn liggur fyrir og maður getur gefið bíómyndinni stjörnur og ákveðið hvort manni líki myndin eða ekki. Gert er ráð fyrir því að það verði þjóðin á endanum og við öll sem tökum ákvörðun um það hvort við viljum ganga í Evrópusambandið eða ekki.