143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:05]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rakti í sjálfu sér ágætlega, held ég, í ræðu minni þá kosti sem ég teldi að upptaka evru gæti haft í för með sér. Það sem mér finnst ekki síður mikilvægt og vil leggja mikla áherslu á er að við séum í þessari umræðu að tala út frá efnislegum rökum. Það sem ég rakti í ræðunni gagnvart því sem til dæmis hæstv. forsætisráðherra sagði um þetta mál, þá er einfaldlega búið að sýna fram á að þær fullyrðingar standast ekki. Mér finnst ótækt að byggja umræðu, ég tala nú ekki um ákvörðun, á röngum upplýsingum. Það finnst mér blasa við í þessum efnum.

Ég get alveg virt það að einhver sé búinn að komast að niðurstöðu fyrir sitt leyti en ég er ekki búinn að því og mér finnst að þeir sem eru búnir að komast að niðurstöðu fyrir sitt leyti eigi að virða það við aðra sem eru ekki búnir að því.