143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:08]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að vekja athygli á því í ræðu minni að gott og vel, við þurfum agaða hagstjórn, ég er alveg sammála því, en það eitt að segja það bjargar engu. Það sem við höfum kallað eftir er áætlun um það hvernig menn ætli að ná slíku fram, að menn sýni á spilin. Úr því að menn eru ekki fylgjandi því að taka upp evruna — sem er ekki gallalaus leið, enginn heldur því fram að hún sé það, hún er ekki skuldbindingalaus af okkar hálfu, hún setur á okkur þá kröfu að við verðum að standa okkur — þá verða menn einfaldlega að sýna á spilin, sýna hvað er mögulegt og það hafa þeir ekki gert.

Fyrir mitt leyti mundi ég mjög gjarnan vilja heyra það. Ég veit að hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur ýmsar hugmyndir um breytingar á peningamálakerfi heimsins en ég held að ekki sé meirihlutavilji fyrir þeim hugmyndum hér á þingi sem stendur.