143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:09]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja út í hver lausnin sé vegna þess að ég held að hún blasi við. Ég held að ef við horfum á hvað hefur komið fyrir í stýringu peningamála, ef hv. þingmaður mundi skoða það, getum við séð að hér hefur verið algjör óstjórn á peningamagni. Peningamagn hefur verið aukið hömlulaust. Í aðdraganda hrunsins var það fimmfaldað á fimm árum. Það er eitthvað sem við getum ákveðið að gera ekki.

Ég hef talað fyrir því að við fylgjumst betur með peningamagninu og ég er ekki einn um það. Úti um allan heim eru menn að tala um þessa hluti. Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að okkur sé alveg fyrirmunað að koma í veg fyrir að hér sé peningamagn aukið hömlulaust ár frá ári? Það hefur verið ágætisstjórn á peningamagni undanfarið ár, það hefur ekki aukist hömlulaust. Við getum alveg haldið því áfram. Hér hafa verið skeið þar sem stjórn hefur verið á peningamagninu og ég held að við getum haft það svo í framtíðinni.

En hvað ætti að koma í veg fyrir, að hans mati, að við getum stýrt peningamagni í landinu?