143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:10]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér hefur oft þótt hv. þm. Frosti Sigurjónsson tala af mikilli skynsemi um peningamál og það hefur oft verið mikil glóra að mínu viti í því sem hann hefur verið að segja. Sumar hugmyndir hans hafa mér fundist vera góðra gjalda verðar en að þær geti mögulega gengið upp, með fullri virðingu, einhvern tíma í framtíðinni og á annarri plánetu.

Ég horfi svolítið út frá þeirri stöðu sem við erum að vinna með núna og þeim möguleikum sem eru á borðinu. Gjaldmiðillinn var ein af fjórum meginröksemdum sem ég taldi upp fyrir þeirri sannfæringu minni að við ættum að verða hluti af Evrópusambandinu. Það er auðvitað sannfæring sem byggir á því að við náum góðu samkomulagi og samningi sem er ásættanlegur, þannig að hann er bara eitt af fjórum atriðum sem ég taldi til. Það leysir okkur ekki undan þeirri ábyrgð að hafa stjórn á okkar málum og fara vel með þau.