143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði það ósköp skýrt að ég tel að okkur gangi betur að vinna okkur út úr erfiðleikum í samstarfi við aðra en ein og sér, hvort sem við eigum við erfiðleika að stríða sem einstaklingar og þurfum að treysta á samstarf við fjölskyldu okkar og vini og samstarfsmenn, eða ef við eigum við erfiðleika að stríða sem þjóð og þurfum að treysta á samstarf við helstu viðskiptaþjóðir okkar.

Það eru engar patentlausnir, hvorki í lífi einstaklinga né þjóða. Þó að Ítalía sé í Evrópusambandinu er enn þá mafía á Ítalíu, spilling á Ítalíu. Ég held hins vegar að margt í evrópska samstarfinu geri Ítölum auðveldara fyrir að eiga við þá erfiðleika sem þar er við að glíma, þau verkefni sem þar er við að glíma, eins og nefnda mafíu, í samstarfi í Evrópu gegn spillingu, í samstarfi í Evrópu í löggæslumálum, og hið sama eigi við um önnur málefnasvið að okkur gengur betur að takast á við þau saman en hvert um sig.