143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:27]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Aftur fjallaði ræðan töluvert um myntmálin og hv. þingmaður spurði spurninga: Með evru, yrði þá ekki líklegra að hér yrðu lægri vextir og meiri aðgangur að fjármagni? Þetta hefði kannski verið góð spurning fyrir kreppu en þá voru vextir svipaðir í öllum evruríkjum, öllum aðildarríkjum myntbandalagsins, þá voru mjög svipaðir vextir og mjög greiður aðgangur að fjármagni og þá hefði svarið verið: Jú.

Hvað hefur kreppan sýnt okkur? Aðildarríki sem eru með evruna hafa lent í miklum vandræðum. Ekki síst hafa vextir orðið mjög ólíkir, mjög sundurleitir milli evruríkja, og í sumum evruríkjum eru þeir jafnvel orðnir hærri en hér. Gott ef nafnvextir íbúðalána fyrir fyrstu íbúð eru ekki komnir í 5% á Kýpur, 7% af íbúð sem fjárfest er í. Og þar er jafnvel neikvæð verðbólga, verðhjöðnun, þannig að raunvextir eru komnir hátt í 8%. Ekki er það mikið betri staða en hér.

Það er líka fjármagnsflótti frá mörgum evrulöndum og menn sem eiga evrur og sparnað í þessum löndum ákveða að taka sparnað sinn úr þessum ríkjum og fara með í einhver önnur lönd þar sem betur árar. Og það er ekkert hægt að sporna við því nema þá með fjármagnshöftum eins og gert var á Kýpur. Það voru jafnvel einhver höft sett í Portúgal og á Spáni á það hvað maður gat tekið mikið út. Er það áreiðanlega skoðun hv. þingmanns að það sé lausnin eftir að hafa séð þetta gerast í myntbandalaginu? Er ekki lausnin bara áfram sú að við sýnum ráðdeild og kunnum fótum okkar forráð í efnahagsmálum, sýnum sem sagt skynsemi í fjármálum okkar?