143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað snýst þetta um það að kunna fótum sínum forráð og sýna ráðdeild. Það höfum við bara ekki gert, því miður. Þá verðum við að velta því fyrir okkur hvaða aðstæður eru líklegastar til þess að skapa okkur tækifæri til að gera það. Ég frábið mér að menn séu að líkja Íslandi við lönd Suður-Evrópu, eyjar í Miðjarðarhafinu þar sem eru ákaflega veik samfélög, hafa lengi verið, þar sem lengi hafa verið herforingjastjórnir vegna þess að þar hefur verið örðugt um lýðræðisuppbyggingu, þar sem engin hefð er fyrir því að greiða skatta eða rækja skyldur eða bera þá miklu félagslegu ábyrgð sem einkennir norðurhluta Evrópu.

Við eigum í þessu sambandi miklu frekar að horfa til nágrannalanda okkar. Hv. þingmaður verður auðvitað að horfast í augu við háan lántökukostnað fólksins í landinu, þeirra sem þurfa að taka lán til að kaupa sér íbúð, t.d. ungu kynslóðarinnar sem er núna að stórum hluta heima hjá foreldrum sínum vegna þess hvernig ástandið er hér á húsnæðismarkaði og vegna þess hversu háir vextir eru. Það þarf ekki annað að gera en að fara bara inn á vefinn og skoða það hvers konar vaxtakjör mönnum bjóðast, hvort sem það er með dönsku krónunni í EMR II-myntsamstarfinu eða með evrunni í Finnlandi.

Auðvitað er það ekki þannig að við munum strax ná þeim vöxtum sem þar eru. Kannski munum við aldrei ná þeim vöxtum sem þar eru, en þó að við gerðum ekki annað en að nálgast þá mundi það skipta gríðarlega miklu máli fyrir venjulegt fólk í þessu landi, fyrir fyrirtækin í landinu. En fyrst og fremst er þar þó tækifæri til þess að ná þeim stöðugleika sem hér þarf að vera til þess að við getum byggt upp fjölbreytt atvinnulíf og rutt þeirri viðskiptahindrun úr vegi (Forseti hringir.) sem íslenska krónan er.