143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:31]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið en mér leiðist töluvert að heyra þingmann tala niður til ríkja sem eru í Suður-Evrópu, að þau kunni ekki fótum sínum forráð í peningamálum þegar við erum sjálf kannski engu betri og höfum ekkert verið betri í gegnum tíðina. Ég sé ekki fyrir mér hvernig hv. þingmaður ætlar að útskýra hvernig við ætlum að fá þessa ráðdeild bara með því að taka upp evruna. Ég held að það sé miklu alvarlegra að lenda í því að gera efnahagsleg mistök þegar við erum komin með gjaldmiðil sem við getum ekki stýrt til að bregðast við mistökunum.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann að öðru vegna þess að ég hef heyrt þá spurningu: Hvað hefði gerst ef við hefðum verið í ESB í hruninu? Hefðum við þá t.d. getað sagt nei við Icesave-samningnum, þ.e. samningnum þar sem átti að láta skattgreiðendur á Íslandi axla skuldir einkabanka? Írar voru látnir axla skuldir sinna banka sem féllu. Hefði ekki verið óheppilegt fyrir Íslendinga að vera í Evrópusambandinu þegar hrunið dundi yfir að þessu leyti?