143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:38]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og tek hjartanlega undir með honum um frelsið og mikilvægi þess að við reynum að útkljá svona stór deilumál, því að það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur, fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar, að ná að klára viðamikil mál. Í því ljósi langar mig að þakka fyrir að fá að taka þátt í þessum umræðum um þetta stóra og mikilvæga mál. Ég held að mikilvægt sé — sama hvaðan við komum eða hvort við erum hrædd um að tapa fullveldi eða höfum þá skoðun að við getum stýrt hagkerfi okkar betur með krónu eða hvað það er, sem ég held að við hv. þm. Helgi Hjörvar séum tiltölulega sammála um að sé ekki staðan — að fara ofan í þessi mál og ræða þau og gera það á yfirvegaðan og (Forseti hringir.) góðan hátt. Ég þakka fyrir.