143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

makríldeilan.

[11:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við urðum vitni að mjög sérstökum atburðum í gærkvöldi þegar fréttir bárust af því að gengið hefði verið frá samningum í makríldeilunni án aðkomu Íslendinga. Það var satt að segja nokkuð sláandi að sjá í beinni útsendingu ráðherra ríkisstjórnarinnar koma gersamlega af fjöllum hvað varðaði þessa þróun.

Utanríkisstefna Sjálfstæðisflokksins hefur um áratugi byggst á hugmyndinni um hagsmunamat, um öfluga hagsmunavörslu Íslands, að gætt sé eins og kostur er íslenskra hagsmuna í hvívetna á alþjóðavettvangi. En til að gæta hagsmuna þurfa menn að komast að borðinu og menn þurfa að vita hvað er á seyði. Geir Hallgrímsson komst að borðinu á sinni tíð. Matthías Bjarnason komst að borðinu á sinni tíð. En nú er þannig komið fyrir ríkisstjórninni að hún kemst ekki að borðinu þegar fjallað er um brýn hagsmunamál Íslands. Þetta er einstakt. Það eru ekki fordæmi fyrir öðru eins.

Það undarlega og kannski hlálega í þessu öllu saman er að þetta gerist daginn eftir að ríkisstjórnin setur fram nýja Evrópustefnu þar sem sérstaklega er tilgreint að leggja skuli upp úr auknu samstarfi við Noreg og vestnorrænu samstarfi. Fyrirgefið, gleymdist að tilkynna Færeyingum og Norðmönnum að þeir væru orðnir hornsteinar í utanríkisstefnu Íslands? Vissu þeir ekkert af því þegar þeir gengu fram á forsendum sinna hagsmuna og gengu frá samningum? Hvernig getur hæstv. fjármálaráðherra sem formaður Sjálfstæðisflokksins réttlætt þessi hrikalegu afglöp sem við verðum hér vitni að, að ríkisstjórnin missi algerlega sjónar á því að ná samningum um þetta brýna hagsmunamál og endi á að vera skilin eftir og gerð afturreka?