143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

makríldeilan.

[11:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Eins mikið og maður átelur það að Ísland skuli skilið út undan þá verður maður að spyrja spurninga um hagsmunavörslu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Af hverju fór íslenska sendinefndin heim frá Edinborg þegar Færeyingar voru kyrrir? Af hverju fór hún heim? Hringdi það engum bjöllum hjá neinum að þeir sátu eftir, Færeyingar? Af hverju gefur sjávarútvegsráðherra þá yfirlýsingu að hann ætli einhliða að úthluta kvóta? Er það ekki yfirlýsing um að ekki sé að vænta frekari samninga af Íslands hálfu? Það voru ákvarðanir teknar sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á, sem kunna að hafa kallað fram þessa stöðu.

Síðast þegar þessir flokkar voru í ríkisstjórn þá klúðruðu þeir líka mikilvægu hagsmunamáli að eigin áliti. Þá klúðruðu þeir varnarsamstarfinu. Þá eins og nú gáfust samningsviðsemjendurnir upp á þeim. Þá eins og nú komu fréttir í fjölmiðlum um að samningsaðilarnir væru að gera tiltekna hluti og ráðherrar komu af fjöllum. Þá eins og nú reyndust fréttirnar réttar.