143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

makríldeilan.

[11:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er engin ástæða til að beina sjónum í dag inn á við í íslensk stjórnmál. Það liggur fyrir að við höfum gætt hagsmuna okkar Íslendinga í nokkur ár í þessu tiltekna máli. Það sem augljóslega hefur gerst hér er að viðsemjendur okkar hafa tekið sjálfstæða ákvörðun um að hætta að tala við Íslendinga.

Um hvað snerust viðræðurnar upp á síðkastið? Meðal annars um þá kröfu Norðmanna að samningsríki eins og t.d. Færeyingar mundu undirgangast þá kröfu Norðmanna að Íslendingar mættu ekki veiða í lögsögu Færeyinga. Heyr á endemi. Hvers konar krafa er það af hálfu Norðmanna að Færeyingar lofi þeim fyrir fram um hvað þeir semja í tvíhliða samningum við Íslendinga? Framganga þeirra þjóða sem hafa hér átt í hlut á að vera efst á baugi í umræðunni í þinginu en ekki með hvaða hætti utanríkisráðherra hefur haldið á málinu. (Forseti hringir.) Það hefur verið vel upplýst um það hér á þingi, í ríkisstjórn og fyrir utanríkismálanefnd og ekkert við það að athuga.