143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

nýjar upplýsingar um hagvöxt.

[11:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Það eru góð tíðindi fyrir okkur öll að hagvöxtur á síðasta ári hafi verið meiri, það hafi verið meiri kraftur í efnahagslífinu en okkar helstu stofnanir spáðu, eins og Hagstofan. Tölur ríkisstjórnarinnar í þessu efni í fjárlögum og fjáraukalögum byggja alfarið á opinberum gögnum og þeim spám sem okkur eru lagðar í hendur af til dæmis Hagstofunni og Seðlabankanum.

Hvað er það sem drífur áfram hagvöxtinn og hvað hefur breyst frá því sem við höfðum áður gert ráð fyrir? Eins og hv. þingmaður kemur inn á er það einkum aukinn kraftur í útflutningsversluninni. Það kemur á óvart hversu mikill kraftur er í ferðaþjónustunni á síðasta ársfjórðungi ársins. Kortavelta erlendra ferðamanna, gistinætur á Íslandi og umsvif, komur ferðamanna, eru umfram það sem menn höfðu áður gert ráð fyrir. Ekkert af þessu breytir því að við verðum samt sem áður, því miður, með halla á ríkissjóði á árinu 2013 og það þrátt fyrir að gripið hafi verið til aðgerða upp á um 12 milljarða til þess að draga úr útgjaldaþróuninni.

Þess vegna fullyrði ég að það var fullt tilefni til að gæta aðhalds við fjáraukalagagerðina fyrir 2013 og áfram inn á árið 2014. Jafnvel þótt það muni hnika einhverjum milljörðum í endanlegu uppgjöri skulum við hafa í huga að það eru lágar tölur í heildarsamhengi hlutanna upp á um 600 milljarða fjárlög. Það er enn mjög mikið verk eftir óunnið, en flestir hagvísar vísa í rétta átt í augnablikinu. Það er mikið fagnaðarefni.

Það er til dæmis ekki mikill verðbólguþrýstingur í augnablikinu, ekkert sem gefur tilefni til að ætla að verðbólga sé að fara af stað. Atvinnuleysi er að minnka og það dregur úr ársfjórðungssveiflum. Lagður hefur verið góður grunnur að vexti kaupmáttar, m.a. með nýjum kjarasamningum, og með því að við höfum opinber (Forseti hringir.) fjármál í góðu jafnvægi höfum við fengið góða viðspyrnu.