143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

nýjar upplýsingar um hagvöxt.

[11:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er allt rétt, atvinnuleysið á leiðinni niður og tekist hefur að halda verðbólgu í skefjum eins og var allt síðasta kjörtímabil. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, hér náðist nefnilega góður árangur en ég varð ekki vör við að hann teldi að núverandi ríkisstjórn hefði eigi að síður kosið að láta hlutina líta heldur verr út því að allt sem hann sagði hér var þegar hafið. Viðreisnin var hafin og viðspyrnan.

Núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur verið mjög dugleg að fara með og syngja þá gömlu og kannski dálítið lúnu möntru að það þurfi að stækka kökuna og til að stækka kökuna þurfi að lækka skatta, þ.e. aukin tekjuöflun skili sér ekki til samfélagsins. Ég velti hins vegar fyrir mér og sé ekki betur en að sú staða sem nú blasir við í ríkisfjármálum sýni að sú tekjuöflun sem síðasta ríkisstjórn fór í sé að skila sér. Ég legg til við hæstv. fjármálaráðherra að ríkisstjórnin skoði stöðuna í ljósi þess árangurs sem hefur náðst. Staðreyndin er sú að fyrir hrun var búið að veikja tekjuöflunarkerfið allrækilega. Ég sé enga ástæðu til þess að (Forseti hringir.) haldið verði áfram að veikja tekjuöflunarkerfið og lækka skatta eins og ríkisstjórnin hefur boðað. (Forseti hringir.) Ég spyr líka hæstv. ráðherra: Er ekki ástæða til að nýta það svigrúm (Forseti hringir.) sem kann að skapast til að styrkja innviðina, heilsugæsluna, framhaldsskólana?