143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

krafa um lækkun gengis.

[11:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Svarið veldur mér nokkrum áhyggjum. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að krónan hríðféll í efnahagshruni sem átti sér stað hér fyrir nokkrum árum. Hún hríðféll og gengi hennar á frjálsum markaði er fáránlega lágt. Ef við mundum hafa það frjálsa gengi á íslensku krónunni mundi það þýða hörmungar fyrir íslensk heimili, verðtryggð lán, verð á neysluvörum, vexti. Í þessum kringumstæðum, þegar krónan hefur fallið svona mikið, virðist hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra samt á einhvern hátt hafa skilning á þeirri kröfu útgerðarinnar, sem gerir upp í evrum, að gengið verði lækkað.

Mundi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sjá fyrir sér að (Forseti hringir.) það mundi þjóna best hagsmunum útgerðarinnar og þar af leiðandi hans stjórnmálaviðhorfum að hafa gengið bara frjálst?