143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

samgöngur við Vestmannaeyjar.

[11:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er í sjálfu sér jákvætt að það er staðfest að áfram er unnið að því að leggja fé í úrbætur í Landeyjahöfn og sömuleiðis að útboð og hönnun á nýrri ferju hefur komist áfram. Að vísu eru minni peningar settir í þetta en gert hafði verið ráð fyrir í fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar, sem því miður varð mjög fyrir barðinu á geðvonsku ríkisstjórnarinnar, þegar hún komst til valda, í garð alls þess sem aðrir höfðu gert. Gert var ráð fyrir verulegum fjármunum í þessa þætti báða og mun ekki af veita.

Varðandi flugið tek ég undir með hæstv. ráðherra að við höfum sennilega gengið of langt í því að skerða fjárframlög til innanlandsflugsins, það skal alveg viðurkennast að fyrri ríkisstjórn ber líka ábyrgð þar á. Það rann upp fyrir okkur og var okkur auðvitað orðið ljóst, samanber það að bætt var inn í flugið aftur á árinu 2013. Þar var einfaldlega búið að ganga of langt. Ég held að við stöndum frammi fyrir því að við verðum að leggja meiri fjármuni í þjónustuna á flugvöllum innan lands. (Forseti hringir.) Það er af fjölmörgum ástæðum, ég tala nú ekki um dæmi eins og Vestmannaeyjar, (Forseti hringir.) en það eru líka öryggisástæður fyrir því. Það verður að halda innanlandsflugvöllunum opnum og nothæfum fyrir sjúkraflug o.s.frv.