143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

samgöngur við Vestmannaeyjar.

[11:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að gengið hefur verið nærri innanlandsflugi á Íslandi á undanförnum árum og staðan er enn sú að ekki er nægt fjármagn. Ég held að það litist dálítið af umræðunni um að við teljum að hún hafi of mikið verið á þá leið að við séum að styðja mjög mikið við flugið. Í ljós kemur í félagshagfræðilegri greiningu nýlega að svo er ekki. Fjármagnið sem við leggjum til innanlandsflugs skilar sér til baka í þjóðarbúið, og margfalt meira að segja. Ég er sammála hv. þingmanni í því að við erum komin alveg út á enda hvað það varðar.

Við erum að leita ákveðinna leiða, við höfum verið í samstarfi við Norðmenn með að skoða þá leið sem þeir fara með því að flytja eitthvað af fjármagni úr millilandaflugi eða rekstri á millilandaflugi yfir í innanlandsflug. Það gæti verið ákveðin lausn. Við höfum talið að það mundi ekki standast samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og þær reglur sem þar gilda. Norðmenn hafa farið þá leið og okkur í ráðuneytinu sýnist að við getum að hluta til lært af þeim. Það er hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að við það fjármagn sem nú er til staðar verður ekki unað þannig að við getum haldið uppi öryggi og þeirri þjónustu sem við viljum halda uppi í innanlandsflugi.