143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna.

[11:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ekkert hvikað frá þeirri skoðun minni frá 2009, þegar þetta endalausa þrætumál var dregið upp og egnt til ófriðar um það, þá var ég eindregið þeirrar skoðunar að það ætti að fara í þjóðaratkvæði þá. Ég hef ekkert hvikað frá þeirri skoðun minni í því efni að þjóðin eigi að koma að málum, alls ekki.

Ég dreg það hins vegar fullkomlega í efa að það þing sem hér starfar og hefur rætt þetta núna linnulaust í marga, marga daga, svo að maður tali ekki um ár, sé í færum til þess að afgreiða þetta mál með þeim hætti að um það náist einhver samstaða. Það er ekkert boðið upp á það hér í umræðum. Jafnvel í óundirbúnum fyrirspurnatímum áðan við fjármála- og efnahagsráðherra var reynt að stofna til áframhaldandi deilna um makríl, pólitískt, í stað þess að beina sjónum manna að sameiginlegu meginmáli og hagsmunum landsins, (Forseti hringir.) þvert á móti var reynt af formanni Samfylkingarinnar að egna til ófriðar innan lands um það mál.