143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[11:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Ég hef lýst því yfir að ég styðji þá tillögu og ætti það ekki að koma neinum á óvart þar sem ég flutti sjálf tillögu svipaðs efnis á síðasta kjörtímabili, innihaldið var það sama, þar sem þegar á miðju síðasta kjörtímabili var algjörlega ljóst að sú aðferðafræði og sú tillaga sem samþykkt var í þinginu í tíð fyrri ríkisstjórnar var ekki vænleg til árangurs fyrir íslenska hagsmuni.

Ég er enn á þeirri skoðun að Íslandi og hagsmunum þess sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Því tel ég eindregið, og stend fast á þeirri skoðun minni, að okkar hagsmunir séu best varðir með því að taka þá afstöðu að draga þessa umsókn Íslands til baka og halda ekki áfram því aðlögunarferli sem Íslands hefur verið í síðan á síðasta kjörtímabili.

Það eru ýmis mál sem rétt væri að ræða í tengslum við þessa þingsályktunartillögu en tíminn er knappur. Í fyrsta lagi er rétt að geta þess að farið var af stað í þetta ferli á mjög veikum forsendum. Ljóst var að fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar voru ekki einhuga um það hvort Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið. Þegar ríki sækir um aðild að Evrópusambandinu er það gert í því ljósi að fyrir því sé meiri hluti á því þingi sem samþykkir það. Sú var ekki raunin hér, heldur vildu menn fara í það að kíkja í pakkann.

Sú hugmyndafræði gengur einfaldlega ekki upp og við sjáum það best á þeim árangri sem fyrrverandi ríkisstjórn náði í samningaviðræðum sínum við Evrópusambandið. Árangurinn skilaði sér ekki, ekki var byrjað að ræða um sjávarútvegsmálin, ekki erfiðu málin þó að það hafi verið fullyrt hér þegar lagt var af stað að aðildarferli okkar og samningarnir tækju mjög stuttan tíma. Það var fullyrt af þeim sem báru það mál uppi og var alveg ljóst að það stóðst ekki.

Það eru ýmis mál sem rétt væri að tala um, m.a. fullveldi og sjónarmiðin varðandi það. Í Lissabonsáttmálanum er fjallað um starfshætti Evrópusambandsins og þar er ákveðið hvaða svið falla undir valdmörk Evrópusambandsins. Í 2. gr. er fjallað um valdheimildirnar, en skipta má málefnasviðunum í þrjá flokka eftir því hversu mikið vald Evrópusambandið hefur.

Ef þjóð vill ganga í Evrópusambandið þarf hún að átta sig á því að þetta eru þrír flokkar málefnasviða. Í fyrsta lagi er málefnasvið þar sem Evrópusambandið hefur sérvald eða, með leyfi forseta, „exclusive competence“. Þarna undir falla til dæmis tollabandalagið, samkeppnisreglur til að tryggja skilvirkni innri markaðarins, peningamálastefnan, sameiginlega viðskiptastefnan og gerð alþjóðasamninga á tilteknum sviðum sem og varðveisla lífríkis sjávar samkvæmt sameiginlegu fiskveiðistefnunni. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að hafa í huga að undir sérvald Evrópusambandsins — fyrir þær þjóðir sem kjósa að ganga í Evrópusambandið — fellur varðveisla lífríkis sjávar samkvæmt sameiginlegu fiskveiðistefnunni.

Þetta felur í sér að Evrópusambandinu eru veittar óskiptar valdheimildir á tilteknu sviði sem skilgreint er í sáttmálanum. Evrópusambandinu er einu heimilt að setja lög og samþykkja lagalega bindandi gerðir en aðildarríkjunum er aðeins heimilt að gera það ef Evrópusambandið veitir þeim umboð til þess. Þarna á sér stað fullveldisframsal og við þurfum að átta okkur á því hvort við séum tilbúin í umræður um hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.

Ég er á þeirri skoðun að ef Ísland kysi að ganga í Evrópusambandið mundum við þurfa að breyta stjórnarskránni til að geta framselt svo mikið vald sem Lissabonsáttmálinn kallar eftir. Ég get ekki sagt það nógu oft að hér er um að ræða varðveislu lífríkis sjávar, hún fellur í þennan flokk um sérvald Evrópusambandsins.

Þetta er grundvallaratriði í Lissabonsáttmálanum og það er alveg ljóst að ef einhverjir sem telja að Evrópusambandið ætli að fara að afsala sér valdi á málaflokki sem fellur undir sérvald Evrópusambandsins samkvæmt Lissabonsáttmálanum þá tel ég að menn hugsi hlutina ekki alveg til enda eða sjái þá í mjög skýru ljósi.

ESB hefur valið að fella þennan málaflokk undir sérvald sitt og þess vegna eru rík sjónarmið innan Evrópusambandsins um að halda sig við þá reglu. Evrópusambandið gengur út á það að menn eigi að vera jafnir og að öll ríkin eigi að sitja við sama borð. Enda gekk hvorki né rak hjá fyrri ríkisstjórn að fá einhverjar undanþágur og ræða þær varðandi sjávarútveginn, m.a. út af þessu.

Síðan er hér um að ræða málefnasvið sem falla undir sameiginlegt vald eða á ensku „shared competence“. Þar undir falla innri markaðurinn, félagsmálefni, efnahagsleg, félagsleg og svæðisleg samloðun, landbúnaður og fiskveiðar fyrir utan þann þátt sem fellur undir sérvaldið sem ég fór yfir áðan. Hér undir falla umhverfismál, neytendavernd, flutningar, orkumál, dóms- og innanríkismál o.fl. Við þurfum að átta okkur á þessum mun þegar við ræðum um aðildina að Evrópusambandinu.

Í þriðja lagi er síðan um að ræða málaflokka þar sem er um að ræða stuðningsvald, á ensku, með leyfi forseta, „supporting competence“. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þar eru undir málaflokkarnir heilbrigðismál, iðnaður, menning, ferðamannaiðnaður, menntun, verknám, æskulýðs- og íþróttamál og borgaralegt öryggi.

Fullveldisumræðan hefur tekið mikið pláss og verið áberandi þegar við höfum á undanförnum árum og áratugum verið að ræða um Evrópusambandsaðild og möguleika Íslands á því að ganga í Evrópusambandið. Ég tel að sú umræða muni halda áfram og óska nú eftir því að menn fari svolítið efnislega í það í þessari umræðu hvers vegna Ísland ætti að afsala sé fullveldi að svo miklu leyti sem Lissabonsáttmálinn gerir ráð fyrir. Hverjir eru hagsmunirnir í því fyrir Ísland?

Ég hef ekki áttað mig á því og ég sé ekki að þeir séu fyrir hendi. Ég hef ekki áttað mig á því í umræðunni hvaða sjónarmið þeir hafa gagnvart þessu sem eru á móti þeirri ágætu tillögu sem hér liggur fyrir. Efnislega umræðan að þessu leyti á eftir að fara fram og ég vona svo sannarlega til þess að við fáum að heyra hana, enda er mælendaskráin löng og menn hafa væntanlega tíma til þess að fara aðeins yfir það.