143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[11:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir prýðilega ræðu og málefnalega eins og hennar er von og vísa. Hún hefur setið vel undir þessari umræðu, þó sýnist mér að hún hafi verið fjarri þegar ég hélt ræðu mína vegna þess að nákvæmlega það sem hún óskaði eftir að heyra sem rök af hálfu okkar sem styðjum aðild flutti ég í tíu mínútna ræðu, að mig minnir, og fjallaði aðeins um það fyrir utan að ég vék aðeins að skýrslunni sem ég er ákaflega ánægður með af hálfu Hagfræðistofnunar.

Hv. þingmaður kallar þetta aðlögunarviðræður. Þá langar mig að vekja eftirtekt á því að nú hefur ríkisstjórnin nýlega samþykkt nýja Evrópustefnu. Aðall hennar er að hraða aðlögun með því að flýta upptöku tilskipunar. Finnst hv. þingmanni það ríma við sína skoðun? Og má ég spyrja hv. þingmann: Getur hún bent mér á eina aðlögun sem ráðist var í í tíð fyrri ríkisstjórnar á tíma aðlögunarviðræðna?

Hefur hún lesið málið svo vel að hún kynni að geta bent mér á eina varanlega undanþágu sem náðist fram í aðildarviðræðunum? Hv. þingmaður þarf ekki að svara því, ég get upplýst hana um að við þurftum eina og við fengum hana.

Hún talar um valdmörkin og það hvernig Lissabonsáttmálinn hefur rígneglt fullveldisframsal. Er það svo? Hvað mundi hv. þingmaður þá segja ef ég héldi því fram að að minnsta kosti fræðilega væri hægt að fá undanþágu frá heilum sameiginlegum sviðum eins og landbúnaði og sjávarútvegi? Það mundi koma hv. þingmanni á óvart. Það kom mér á óvart þegar prófessor í stjórnskipunarfræðum sem ekki hefur verið talinn hallur undir Evrópusambandið hélt því fram að eigin frumkvæði. Enginn hafði hugmyndaflug til þess að spyrja hann um það en svona liggur þetta. Menn vita ekki hverju þeir geta náð fram í samningum fyrr en þeir hafa lokið þeim.