143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[11:57]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar sem var í rauninni ekki andsvar við ræðu mína heldur upptalning á því sem aðrir hafa sagt. Ég tjái mig hér um afstöðu mína og hvað mér finnst um þetta mál, um það var ræða mín. Ég verð að segja að það að hengja sig í þann málflutning sem hv. þingmaður gerir hér er ekki vænleg leið til þess að leysa mál. Við þurfum að líta á stöðuna eins og hún er og taka ákvörðun um hvað hægt er að gera og hvert við eigum að fara. (Gripið fram í.)

Við erum í þeirri stöðu að fyrrverandi ríkisstjórn sótti um aðild að Evrópusambandinu án þess að annar stjórnarflokkurinn á þeim tíma vildi ganga í Evrópusambandið. Það var gert undir þeim formerkjum að hægt væri að kíkja í pakkann. Það er afstaða mín að með því klúðraði fyrrverandi ríkisstjórn sínu eigin baráttumáli og þá sérstaklega Samfylkingin sem var svo agalega kát yfir því að fá einhvern með sér í þá vegferð.

En maður þarf að hugsa hlutina til enda. Á þeim tíma kom fram tillaga í þinginu frá okkur sjálfstæðismönnum um að það bæri að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja skyldi um. Ekki var fallist á það af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar og ég tel að flestir þáverandi stjórnarliðar sem ég talaði við hafi nú viðurkennt að það hafi verið mikil mistök af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar að samþykkja ekki þá tillögu til að hafa skýrt umboð að því leyti í farteskinu. Ég held að það sé komið á daginn nú að haldið var mjög illa á þessu máli af þeim sem helst vilja fara inn í Evrópusambandið. Ég hef sagt það áður hér úr þessum stól að væri ég á þeirri skoðun að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið þá væri ég algerlega hoppandi ill út í fyrrverandi ríkisstjórn fyrir það með hvaða hætti hún hélt á málunum vegna þess að hún klúðraði málunum gersamlega.