143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eftir að hæstv. utanríkisráðherra lagði fram þá þingsályktunartillögu sem við ræðum hefur ólgan í samfélaginu vaxið dag frá degi. Þjóðin vill fá að segja álit sitt á framhaldi viðræðnanna við Evrópusambandið. Tugþúsundir Íslendinga hafa lýst þeim áhuga, m.a. með því að skrifa nafn sitt á lista þess efnis og að auki mætt á Austurvöll dag eftir dag. Ég held að skýrari geti vilji þjóðarinnar ekki orðið.

Ég held að eins og stundum hefur verið sagt sé þetta kornið sem fyllti mælinn. Þjóðin bíður enn eftir stærstu aðgerð í heimi sem lítið bólar á og svo þegar þessari tillögu er skellt fram nánast áður en umræður hófust um skýrsluna um Evrópusambandið og stöðu samningaviðræðna er fólki misboðið, bæði því sem aðhyllist inngöngu í Evrópusambandið og hinu sem er ekki jafn sannfært eða vill þetta alls ekki. Markmiðið er að fá að greiða atkvæði og kannanirnar hafa sýnt að mikill meiri hluti vill fá að sjá samning til að taka afstöðu til þar sem allar þær upplýsingar liggja fyrir sem hægt er að fá, en ekki láta nokkra stjórnmálamenn segja sér hvort eitthvað sé mögulega eða hugsanlega framkvæmanlegt. Og hvað er að óttast? Er það ekki hlutverk okkar sem stjórnmálamanna að hlusta eftir þessum röddum eða eigum við að láta duga að óska eftir því að á okkur sé hlustað á fjögurra ára fresti? Rétt eins og Vilhjálmur Árnason prófessor sagði á dögunum í útvarpsviðtali þiggjum við aðkomu þjóðarinnar á fjögurra ára fresti en viljum svo kannski minna með skoðun hennar gera þess á milli.

Það að starfa hér á þingi snýst ekki um að hugsa fyrst og fremst um það sem að okkur sjálfum snýr, við erum fulltrúar fólksins og lýðræðið er ekki einungis falið í því að kjósa okkur á þing heldur að hlusta á þjóðina þegar hún kemur fram með svo sterk viðbrögð. Út á það gengur tillaga okkar vinstri grænna sem er tilraun til að sætta ólík sjónarmið og ná sem flestum með í ákvarðanatökunni.

Þegar við tókum þátt í því að koma þessu máli á dagskrá var ævinlega lagt upp úr því að þjóðin skyldi ljúka málinu með því að taka afstöðu til samnings í atkvæðagreiðslu.

Það að vera í pólitík snýst gjarnan um málamiðlanir og þar erum við stödd núna. Málamiðlun verður að nást í þessu stóra máli sem hefur tekið allt of mikið pláss í samfélagslegri umræðu og í allt of langan tíma. Við verðum að leiða málið til lykta og best hefði verið að mínu viti að klára viðræðurnar og leggja fyrir þjóðina samning en næstbesta kostinn tel ég felast í tillögu Vinstri grænna sem gengur út á að málið verði áfram á þeim ís sem það er en þjóðin fái að greiða atkvæði um það fyrir næstu kosningar.

Við megum ekki líta svo á að með því höfum við tapað einhverjum slag heldur höfum við mætt sem flestum ólíkum sjónarmiðum út frá stöðunni eins og hún er og blasir við okkur í dag. Það er enginn aumari af því að brjóta odd af oflæti sínu og stundum þurfum við sætta okkur við að niðurstaða máls er önnur en sú sem við helst vildum, því að það er lýðræðið í hnotskurn og eftir því ber okkur að vinna á þingi.

Skýrslan sem við ræddum hér á dögunum er heldur ekki stóri sannleikurinn í þessu umfangsmikla máli. Hann verður aldrei leiddur fram nema með samningi sem þjóðin fær að greiða atkvæði um. Við þingmenn og aðrir getum viðrað spádómsgáfu okkar um það hvernig möguleg niðurstaða gæti orðið en eins og ég hef sagt er það samningur sem hlýtur að vera endanlega niðurstaða með öllum þeim upplýsingum sem við getum tekið afstöðu til. Eins og í kosningum verðum við sjaldan öll alveg sammála niðurstöðunni.

Þeir sem aðhyllast Evrópusambandið halda að sjálfsögðu á lofti því sem þeir telja málstaðnum til framdráttar og hinir sem ekki vilja þangað inn finna því allt til foráttu. Það eru auðvitað kostir og gallar við að koma Íslandi í Evrópusambandið, annað væri einfaldleiki. Ég tel að allir, bæði aðildarsinnar og þeir sem alls ekki vilja ganga í ESB, séu fullmeðvitaðir um að um er ræða ríka hagsmuni fyrir íslensku þjóðina. Sumir tala um fjarlægð frá valdinu og lýðræðishalla en aðrir telja að mesti lýðræðishallinn sé fólginn í því að hafa ekki rödd innan Evrópusambandsins.

Enn aðrir segja að við eigum ekkert erindi í þetta samband burt séð frá því hvort einhverjar sérlausnir sé þar að fá, hvort sem þær varða sjávarútvegs- og landbúnaðarmál eða byggðamálin. Svo eru þeir sem eru sannfærðir um að með inngöngu í ESB séu meiri líkur á að við leysum gjaldeyrismálin, vaxta- og verðbólgumálin og fáum jafnvel í kaupbæti sem þjóð lækkað matarverð o.s.frv.

Það er nefnilega málið að öll sjónarmið eiga rétt á sér og við getum ekki leyft okkur að gera lítið úr andstæðum málsrökum og tilfinningum sem tengjast þessu máli. Þegar öllu er á botninn hvolft held ég að við deilum tæpast um það að aðild að Evrópusambandinu þýðir stóraukið framsal á innlendu valdi til yfirþjóðlegra stofnana. Álitamálið er hvort ávinningurinn af þeirri aðild sé slíkur að hann vegi upp á móti eða réttlæti yfirleitt slíkt valdaframsal. Við erum nú þegar, eins og margoft hefur komið fram í umræðunni, skuldbundin af alls konar samningum sem þegar þýða að við höfum afhent völd í miklum mæli, t.d. í gegnum EES-samninginn.

Eins og ég hef sagt verður þessum málum aldrei fullsvarað nema með samningi og það er ástæðan fyrir því að ég er á móti þeirri tillögu sem hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt fram.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ríkisstjórnin og sá þingmeirihluti sem að henni stendur hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að aðild að Evrópusambandinu komi ekki til greina fyrir Ísland, en nú þarf að svara fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem var lofað. Margir kjósendur, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, telja sig vera hlunnfarna vegna þeirrar ákvörðunar sem ríkisstjórnin hefur nú tekið. Það kom meðal annars fram í kosningabæklingi Sjálfstæðisflokksins, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Kjósendur ákveði í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram.“

Þetta er ekkert ósvipað og gerðist í mínum flokki. Við höfum lýst yfir eindreginni afstöðu gagnvart Evrópusambandinu en við höfum líka viljað hafa valdið í höndum þjóðarinnar. Ég held að við getum ekki misskilið það sem þarna kom fram og örugglega ekki þeir sem hafa látið í sér heyra varðandi þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins. En eins og við höfum stundum sagt áður: Kannski er loforð aðeins spurning um orðalag eða kannski er þetta allt saman misskilningur og þá ekki sá fyrsti sem þessi ríkisstjórn væri að fást við.

Við þurfum að leiða þetta mál til lykta og tillaga okkar hjá Vinstri grænum er farvegur til þess að gera það. Ef við efnum til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabils eru stjórnmálahreyfingar, eins ólíkar og þær eru margar, með niðurstöðu þjóðarinnar sem leiðsögn fyrir næstu kosningar og við myndun næstu ríkisstjórnar. Hins vegar er stóra spurningin sem pólitíkusar þurfa að svara alltaf sú hvort þeir muni og ætli að virða þann þjóðarvilja sem kemur til með að birtast í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Auðvitað ættum við ekki að þurfa að velta því fyrir okkur þegar stór hluti þjóðarinnar hefur nú þegar skrifað undir áskorun þess efnis og tekur líklega þátt í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu, þá á hún að vera veganesti sem við tökum mark á.

Virðulegi forseti. Í lokin vil ég taka fram að þótt ég sé ekki endilega fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu þykir mér hugmyndin um viðræðuslit ekki góð. Það er áhugavert að velta fyrir sér að flokkar treysti sér eingöngu til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu ef þeir telja að niðurstaðan verði þeim þóknanleg. Mér finnst það ákveðið hugleysi gagnvart lýðræðinu og vantraust á dómgreind landsmanna.

Því vil ég eins og félagar mínir sem hér hafa talað hvetja ríkisstjórnina til að taka í þá útréttu sáttarhönd sem felst í tillögu okkar vinstri grænna sem kemur til móts við þau sjónarmið ríkisstjórnarinnar að hún vilji ekki vera í aðildarviðræðum en tryggir um leið aðkomu þjóðarinnar. Samvinna og sátt var það sem núverandi ríkisstjórn sagðist ætla að beita sér fyrir, nú er tækifærið. Ef við ætlum að vera sannfærandi stjórnmálamenn eigum við að halda sjónarmiðum okkar á lofti, vera trú í pólitík okkar og sjá til þess að allt ferlið sé opið og treysta því um leið að þjóðin komist að þeirri niðurstöðu sem hún telur besta fyrir sig. (Forseti hringir.) Í því er enginn ómöguleiki fólginn.