143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:30]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er stór spurning. Við erum alltaf í einhverjum spekúlasjónum um hvað ef og allt það. Ég hef sagt að ég sé tilbúin að skipta um skoðun í þessu máli sem og öðrum ef eitthvað sem mér hugnast getur réttlætt það. Ef samningurinn yrði mjög ákjósanlegur væri ég a.m.k. tilbúin til þess að gefa því tækifæri, en ég get ekki þar með sagt það hér og nú vegna þess að mér hefur fundist stefna hæstv. ríkisstjórnar, t.d. í fjárlagagerðinni, vera í takti við það sem Evrópusambandið er svolítið að praktísera, þ.e. ískaldan niðurskurð í fjárlögum í staðinn fyrir að fara þá blönduðu leið sem við reyndum að gera á síðasta kjörtímabili. Það er svolítið skondið að ríkisstjórn sem talar hvað mest á móti aðildarsamningnum skuli hegða sér í því stóra máli sem fjárlög ríkisins eru með mjög sambærilegum hætti og gert er í Evrópusambandinu. Það er auðvitað ekki til eftirbreytni.

Eitt af því sem ég óttast hvað varðar inngöngu í þetta samband er að þar með missum við þó þann sjálfstæða rétt sem við höfum með fjárlagagerð okkar sem getur orðið til þess að við sitjum uppi með það sem við gerum núna, þ.e. fjárlagagerð í anda ESB en ekki í anda vinstri manna og félagshyggju sem við stóðum fyrir á síðasta kjörtímabili. Það er eitt af stóru málunum.