143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Þó að ég sé algjörlega andsnúinn þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og hún sé lögð fram á röngum tíma og feli í reynd í sér rangt mat á stöðu Íslands gagnvart umheiminum og sérstaklega rangt tímaskyn hæstv. utanríkisráðherra, því þetta er u.þ.b. vitlausasti tíminn sem hægt er að leggja fram svona tillögu, segi ég samt sem áður að eftir að hafa verið við fjölmargar umræður um utanríkismál sem hafa tengst Evrópusambandinu er sú sem hér hefur staðið síðustu röska viku sú besta. Hún er sú málefnalegasta sem ég hef komið að. Ekki get ég svo sem þakkað hæstv. ráðherra það, því hann hefur mest stritast við að sitja og lítið svarað fyrirspurnum, t.d. um það hvernig menn meta áhrif þessa flumbrugangs á viðleitni hans við að fá fram endurskoðun á EES-samningnum, eða hvort hann telji að það hjálpi okkur eitthvað við að halda áfram undanþágu sem við höfum frá grunnsamningum EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga. Nei.

Hins vegar hafa hér margir þingmenn, bæði stjórnarliðsins og ekki síður stjórnarandstöðunnar, flutt ræður sem mér hafa þótt varpa skýrara ljósi á málið. Ég vil sérstaklega þakka þær ræður t.d. sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hefur haldið hér sem hafa verið mjög málefnalegar og tekið vel utan um þau helstu rök sem andstaðan hefur flutt gegn aðildinni.

Það markverðasta sem hefur komið fram á þessum morgni er þó það sem birtist í andsvörum hv. þm. Helga Hjörvars og hæstv. velferðarráðherra fyrr í dag. Þar kom fram í máli hv. þm. Helga Hjörvars sem ég vissi ekki áður að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur líka fylkt sér í raðir þeirra forustumanna Sjálfstæðisflokksins sem hafa lýst því skorinort yfir að hafa eigi þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðnanna. Það vissi ég ekki áður. Það var nýtt.

Merkast í þeim samskiptum var sú staðreynd að hæstv. ráðherra sagði að hann teldi að ekkert hefði komið fram sem benti til annars en að það yrði líka raunin þegar upp er staðið. Það er það sem skiptir máli, að þjóðin fái að kjósa um framhald viðræðnanna.

Ég er þeirrar skoðunar að sú mikla reiði sem hefur brotist fram í því að yfir 80% af þjóðinni vilja fá að halda viðræðunum áfram sé af tveimur rótum runnin. Annars vegar vilja menn ógjarnan sjá klippt á þann möguleika sem felst í því að geta haldið viðræðunum áfram og síðan lokið samningum og hugsanlega gengið í Evrópusambandið og tekið upp evruna. Það skapar mikinn kvíða hjá mörgum gagnvart framtíðinni, ekki síst í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn hefur ekki lagt fram skýra framtíðarsýn um það.

Hins vegar og ekki síst tel ég að reiðin sé spunnin af þeim toga að menn ætlast til þess að íslenskir stjórnmálamenn standi við orð sín. Það liggur fyrir að sex ráðherrar hafa nú orðið uppvísir að því að standa ekki við orð sín. Það er það sem þarf að slétta út af borðinu.

Herra forseti. Þegar ég segi að þessi tillaga sé ekki rétt tímasett er margt sem hægt er að færa því til sterkra röksemda. Í fyrsta lagi tel ég að núna blasi við það meginverkefni að afnema gjaldeyrishöft. Það er ekkert sem ríkisstjórnin hefur sagt eða gert sem bendir til að hún hafi fullmótaða áætlun um það. Ég er þeirrar skoðunar að tryggasta leiðin til að afnema gjaldeyrishöftin sé að gera það í samvinnu við Evrópusambandið og halda viðræðum áfram. Það er kannski gildasta röksemdin.

Önnur röksemd og skyld þeirri fyrstu er sú staðreynd að með því að halda viðræðunum áfram getum við tiltölulega fljótt eftir að aðild hefur verið samþykkt komið krónunni í skjól, nánast með því að ganga inn í fordyri evrunnar þegar við verðum aðilar að gjaldmiðlasamstarfi Evrópusambandsins. Það felur í sér að Evrópski seðlabankinn styður við krónuna á tilteknu viðmiðunargengi. Þá strax munu vextir lækka og staðan verða miklu betri og traustari. Það skiptir máli að komast í þetta skjól.

Í þriðja lagi er síðan sá möguleiki að geta tekið upp evruna sjálfa. Við höfum séð að þrátt fyrir þær hremmingar sem hafa gengið yfir Evrópusambandið og evrulöndin styrktist evran. Stóru þjóðirnar eru nú í óðaönn að færa gjaldeyrisvaraforða sína yfir í evruna. Það er löggilt heilbrigðisvottorð um að þær líta á hana sem traustan framtíðarmiðil. Það sem var merkilegast á meðan mestur gusugangurinn gekk yfir Evrópusambandið fyrir nokkrum missirum var að evran styrktist gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum heimsins. Hún hefur því sýnt sinn styrk.

Í fjórða lagi munu auðvitað vextir hér smám saman lækka ef við tækjum upp evruna. Íslandsálagið, það álag sem við greiðum krónunnar vegna, er metið um 3–4%. Ef við reiknum með 3% vaxtalækkun á einhverju tilteknu árabili þýðir það, þegar tekið er allt saman, að lækkun greiðslubyrði heimila, hins opinbera og ríkissjóðs, fyrirtækja í landinu, nemur samtals 230 milljörðum kr. á ári. Þetta skiptir allt miklu máli.

Í fimmta lagi skiptir máli að ef við færum þessa leið þyrftum við ekki að búa með þann stóra gjaldeyrisvarasjóð sem við höfum allan að láni. Það eitt og sér mundi skipta tugum milljarða í lægri kostnað ríkissjóðs á hverju ári.

Í sjötta lagi blasir við að út af núverandi höftum, og hefur það komið fram nýlega í máli Viðskiptaráðs, töpum við andvirði útflutnings á hverju ári vegna haftanna sem nemur 80 milljörðum kr. á ári í útflutningsverslun. Þetta skiptir mjög miklu máli.

Í sjöunda lagi tel ég að eitt af því sem er draumur núverandi ríkisstjórnar og reyndar stjórnarandstöðu líka, að afnema verðtrygginguna, gerist sjálfkrafa þegar menn eru búnir að vera svolitla stund í hinu nýja bandalagi sameiginlegrar myntar. Það er einfaldlega þannig. Þá gæti sá ágæti prestssonur sem úti í sal hlær, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, glaðst, vegna þess að hann er einn af þeim sem hafa verið sorgmæddir upp á síðkastið yfir því fíaskói sem birtist okkur þegar ríkisstjórnin ætlaði að afnema verðtrygginguna og hafði ekki meira upp úr því krafsi en að festa hana í sessi.

Í áttunda lagi er ég þeirrar skoðunar að þetta muni opna nýja möguleika fyrir íslenskan sjávarútveg. Til dæmis munu falla niður allir þeir tollar sem enn þá eru á útflutningi sjávarfangs, sérstaklega uppsjávarfisksins. Miðað við hvernig veiði á honum og uppsjávartegundunum hefur þróast þýðir það 20 milljarða í þjóðarbúið í formi tollaafnáms.

Þess utan, í níunda lagi, mun þetta opna möguleika fyrir nýja tegund af framleiðslu á Íslandi sem við sjáum hafa sprottið upp í litlum framleiðslufyrirtækjum víðs vegar um landið sem framleiða tilbúna rétti fyrir innanlandsmarkað. Tollmúrar á tilbúnum réttum á Evrópusambandið eru ókleifir. Um leið og þeim múrum yrði rutt úr vegi mundi það leiða til þess að t.d. fyrirtæki eins og hinn vinsæli Grímur kokkur, sem ég og ýmsir aðrir sem stundum þurfum að hafa hratt á hæli til þess að grípa í kvöldmatinn notfærum okkar, mundu á tiltölulega fáum árum geta orðið að stórveldi í Evrópu.

Í tíunda lagi: Hvað þá með hina ungu bændasyni þessa lands? Gætu þeir ekki horft glöðum, björtum augum til framtíðarinnar innan Evrópusambandsins? Að sjálfsögðu. Þar er að vaxa eftirspurn eftir hágæðavöru úr landbúnaði sem Íslendingar geta svarað. En til þess þurfum við afnám tolla.

Eitt af viðfangsefnum hæstv. utanríkisráðherra þessa dagana er að reyna að ná hærri tollkvótum á Evrópusambandið. Af hverju? Vegna þess að eftirspurnin er mikil og framleiðslan er fyrir hendi. Þannig að ég held því fram að innganga og aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði mikil lyftistöng fyrir bændur, sérstaklega fyrir unga bændur sem hafa augun á framtíðinni og eru búnir að stúdera þetta vel.

Ég gæti haldið áfram nokkuð, herra forseti, en ég ætla að láta hér staðar numið. Þó vil ég segja að sú skýrsla sem hefur verið grundvöllur þessarar umræðu, skýrsla Hagfræðistofnunar, hefur komið mér þægilega á óvart. Hún hefur sýnt algjörlega skýrt, og vísa ég þá í kafla 14 í viðauka Stefáns Más Stefánssonar, að vissulega er það þannig að þegar umsóknarríki leggur inn umsókn verður það að meginreglu að gangast undir það að taka upp regluverkið á hinum sameiginlegu sviðum, en eins og prófessorinn sýnir svo skýrt fram er hægt að fá sérlausnir, við höfum nú þegar fengið eina í samningunum fram að þessu. Skýrslan sýnir að það er hægt að fá sérlausnir í sjávarútvegi sem svara okkar þörfum svo fremi sem þær séu skýrt skilgreindar.