143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:47]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög skýrt í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar frá síðasta kjörtímabili að viðræðurnar ættu að taka mjög skamman tíma. (Gripið fram í: Nei.) Nú er fullyrt að fyrst hafi átt að fara fram einhver undirbúningsvinna. Af hverju koma menn ekki og segja bara hreint út að það var um aðlögun að ræða? Það tók tvö ár að hefja efnislegar umræður og kaflarnir sem var talað sérstaklega um í áliti utanríkismálanefndar að yrði að skoða fyrst og fremst, landbúnaðarkaflinn og sjávarútvegskaflinn, voru óopnaðir. Auðvitað fjallar þetta um tollvernd og auðvitað fjallar þetta um að það er ekki samstaða á Íslandi um hver samningsmarkmiðin eigi að vera. Þar liggur hundurinn grafinn.

Í þeirri skýrslu sem hinn ágæti (Gripið fram í: Aðjúnkt.) aðjúnkt við Háskólann á Akureyri lagði fram kemur einmitt (Forseti hringir.) fram að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi sagt í bréfi að því miður væri mjög ólíklegt að við næðum einhverju (Forseti hringir.) samkomulagi um tollverndina. Um leið getum við sagt (Forseti hringir.) að það liggi fyrir um hvað (Forseti hringir.) samið var og um hvað var ekki samið.