143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[13:32]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Ástkær forseti. Mig langar til að koma hér upp sem fulltrúi fólks sem þarf að búa í þessu landi næstu sjötíu árin vonandi, fólks sem þarf að skapa sér tækifæri og kaupa sér fasteignir og versla í matinn og ala upp börnin sín og eiga í samskiptum við aðrar þjóðir í sífellt alþjóðlegri heimi. Sem fulltrúi þessa hóps hryggir þessi þingsályktunartillaga mig mjög. Mér finnst ekki réttlátt að 38 þingmenn geti tekið frá mér og þúsundum annarra þann möguleika að útkljá það hvort ég sem Íslendingur en líka sem Evrópubúi og heimsborgari geti vegið og metið hvort hagsmunum mínum og minnar þjóðar geti verið til lengri tíma betur borgið sem þjóð á meðal þjóða, eða þjóð sem aðrar þjóðir gefast upp á að tala við.

Verði niðurstaðan sú að hagsmunamat meiri hluta samlanda minna og mögulega mín eigin niðurstaða að loknum aðildarviðræðum verði að standa fyrir utan það tiltekna bandalag finnst mér enn brýnna en áður að fyrir liggi plan um hvernig við ætlum að halda á efnahagsstjórn okkar og samskiptum við aðra. Það verður, með fullri virðingu, að vera íburðarmeira og byggt á sterkari stoðum en A4-blaði um eflingu og samskiptum við ríki sem meta hagsmuni sína að því er virðist svo að það sé auðveldara að ná samningum um flókin mál án okkar.

Ég upplifi þingsályktunartillöguna sem birtingarmynd sterkra ítaka þeirra sem hafa komið ár sinni vel fyrir borð, hafa komið sér upp húsnæði á viðeigandi kjörum og munar alls ekkert um að fara í Bónus og kaupa brauð og mjólk og bleiur og fleiri nauðsynjar á 20 þús. kr., því þeir hafa öruggar framtíðartekjur. Mér finnst hún alls ekki bera með sér víðsýni eða traust á það að hægt sé að undirgangast ferli sem aðrar þjóðir, sem við viljum gjarnan bera okkur saman við, hafa undirgengist og fá fram upplýsingar og að lokum niðurstöðu sem hægt er að taka afstöðu til.

Það sem vefst einna helst fyrir mér er röksemdafærsla sem ég hef heyrt frá mörgum stjórnarþingmönnum um að ekki hafi verið farið af stað í þetta ferli með réttum hætti og nú sé verið með einhverjum hætti að núllstilla. Gjarnan er vitnað í umræður sem átt hafa sér stað á þingi löngu áður en ég hóf sjálf þátttöku í pólitík, og í sumum tilfellum áður en ég fæddist, en oftast er árið 2009 nefnt í þessu samhengi. Mig langar til að benda á að sem betur fer hefur umræðan á Íslandi þroskast frá árinu 2009. Við höfum viðað að okkur meiri upplýsingum, gert ágætar skýrslur, komið okkur upp samböndum og heyrt fleiri sjónarmið. Þessi þroski sýnir sig að mínum dómi líka í nýlegum könnunum sem sýna að 72% Íslendinga vilja fá að segja skoðun sína um áframhaldandi viðræður og af þeim mundu 59% vilja halda viðræðum áfram.

Við þurfum hins vegar að búa við það að 38 stjórnarþingmenn geta ákveðið að 72% af þjóðinni eigi ekki að fá að segja hug sinn, á þeim forsendum að farið hafi verið af stað með aðferðum eða með þeim hætti sem þeim flokkum sem nú stjórna landinu hugnaðist ekki. Þótt það kunni jafnvel að vera rétt langar mig einfaldlega að segja að 2009 var að hringja og það vill fá umræðuna sína til baka. Að mínum dómi er umræðan í dag mun þroskaðri og hefur færst frá mjög þjóðrembingslegum stað sem byggði á forræðislegum grunni og í mörgum tilfellum á mjög þröngum hagsmunum yfir í að vera innlit í heim þar sem við getum mögulega tekið þátt í samstarfi við aðra án þess að tapa sjálfsvirðingu okkar sem Íslendingar þó svo við borðum ekki bara íslenskt lambakjöt og gúrkur.

Mér finnst að við eigum að nota tækifærið og klára þetta mál og byggja það á raunveruleikanum og framtíðinni, en ekki á ómöguleika og fortíðinni. Það er ömurleg framtíðarsýn. Ég get ekki sætt mig við hana.