143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[13:51]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þessi sjónarmið og sérstaklega hvað varðar faglegheit. Mér finnst þau mjög mikilvæg. Mér finnst þau ekki mega tapast í þessu öllu saman. Mér finnst þau líka vera ákveðinn grunnur að því sem ég var að telja upp áðan og mér finnst ég vera ákveðinn fulltrúi fyrir. Mér finnst vera ákveðið kynslóðabil. Það er ákveðinn heimur sem vill, að mínum dómi, halda okkur á stað þar sem er ákveðið öryggi sem hefur verið byggt upp. Þar eru þekktar stærðir og hið óþekkta og óörugga gæti leitt eitthvað annað af sér. Menn eru hræddir við það.

Ég er hins vegar ekki hrædd við það vegna þess að ég tel mjög mikilvægt og merkilegt hvað okkur hefur tekist að byggja upp mjög faglega stjórnsýslu til dæmis. Ég mundi treysta þessari ríkisstjórn til að velja sér mjög færa og fagmenntaða og faglega fulltrúa til að leiða þessi mál til lykta. Pólitísk sannfæring manns nær ákveðið langt og maður kemst að vissum mörkum einhvers staðar í því. Þá verður eitthvað faglegra og betra og rökhyggja og raunveruleikinn að taka við.

Ég hvet enn og aftur hæstv. utanríkisráðherra til að skoða hug sinn vel og ræða jafnvel við félaga sína og komast að raun um að þetta er röng leið. Það er meira og betra í boði.