143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var síðast í gær sem hv. þm. Pétur H. Blöndal las upp úr atkvæðaskýringu minni eða nefndi hana og er atkvæðaskýring mín 2009 honum afar kær. Hann hefur oft vitnað í hana og þykir greinilega vænt um hana. Ég held að það sé einfaldlega vegna þess að þingmaðurinn og fleiri sem hafa átt til með að vitna í hana sjá hana í raun og veru sem ómöguleika og eiga mjög erfitt með að setja sig í þá stöðu að segja: Evrópusambandið hefur eftirfarandi galla, þess vegna vil ég að við sækjum um þar. Það hefur jafnvel verið sagt að þetta sé til marks um að við höfum eiginlega verið í böndum, sum okkar, þegar við greiddum atkvæði með aðildarumsókn.

Þetta var nákvæmlega eins og ég lýsti og fór yfir áðan. Það var að mínu mati einfaldlega komið að því að þessi spurning færi til þjóðarinnar milliliðalaust og til þess að það mætti verða þurftum við að fara þá leið. Það olli mér auðvitað vonbrigðum eins og mörgum öðrum að þetta tók langan tíma og við hefðum viljað fá niðurstöðuna fyrr í hendur. En af því að hv. þingmaður nefnir lýðræðisumræðuna almennt hefur mér fundist til dæmis þessi umræða hérna að jafnaði vera góð að því leytinu til að við erum að rökræða. Við erum að rökræða og það er, sem mér finnst afar mikilvægt í rökræðu, ákveðið óttaleysi. Það er að orða efasemdir sínar og vangaveltur. Það er að vera ekki búinn að múra sig úti í hornið þar sem niðurstaðan liggur fyrir fyrir fram, og ég mun aldrei hlusta á neinn af því að ég er svo löngu búinn að komast að öllum hugsanlegum niðurstöðum míns lífs um tvítugt og mun ekki komast að neinum eftir það.

Það þarf svolítinn kjark til þess að rífa sig frá þessu en því miður hefur hin leiðin einkennt of mikið okkar pólitísku orðræðu (Forseti hringir.) og kannski ekki aðeins okkar heldur í heiminum almennt í mjög langan tíma.