143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið og tek heils hugar undir. Allt þetta mál, afstaða hæstv. ríkisstjórnar til lýðræðisins, minnir mig á orð sem ég man ekki hvaða hæstv. spekingur lét falla á sínum tíma en varða tjáningarfrelsið. Þá var einhver ægilega vond umræða í gangi og spekingurinn sagði eitthvað á þá lund að hann væri algjörlega ósáttur við allt sem hefði verið sagt en mundi verja til dauðans réttinn til að segja það.

Það er svo mikilvægt þegar við tölum um lýðræði að við áttum okkur á því að við erum að tala um rétt, og það þýðir að við getum verið ósammála fólki. Ef fólk hefur tjáningarfrelsi þýðir það að það má segja ljóta hluti. Rétturinn til að segja einungis hluti sem eru í lagi er ekki tjáningarfrelsi. Stalín var hlynntur þannig tjáningarfrelsi, frá sínu eigin sjónarhorni, og allir eru hlynntir lýðræði miðað við þá skilgreiningu að það eigi aðeins að gilda þegar ríkisstjórnin er sammála þjóðinni. Það er tilgangslaust. Það er bull. En einmitt í þeim skilningi legg ég mikið upp úr því að sýna fram á að Vinstri hreyfingin – grænt framboð gat á síðasta kjörtímabili þrátt fyrir efnislega andstöðu við Evrópusambandið unnið að málefninu með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Maður hefði haldið að það væri sjálfsagt, maður hefði haldið að það þætti sjálfsagt. Maður hefði haldið að það væri ákveðinn skandall að hæstv. ríkisstjórn segði: Við bara getum þetta ekki, okkur langar ekki til þess og þá er þetta ómögulegt og ekki hægt.

Ég veit ekki um neina aðra vinnu þar sem maður getur sleppt því að gera það sem maður vill ekki gera. Þetta eru stórfurðuleg rök. Ég held að kynslóðir framtíðarinnar eigi eftir að hlæja sig máttlausar yfir þessu, alla vega þegar þær eru búnar að gráta yfir því.

Hvað varðar auðmýktina gagnvart þjóðinni sem hv. þingmaður nefndi velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál núna, (Forseti hringir.) jafnvel ef ómöguleikarökin eiga að halda, gæti verið (Forseti hringir.) til gagns fyrir næsta kjörtímabil, fyrir næstu kosningar og næstu ríkisstjórn ef hún er til í að vinna að vilja þjóðarinnar.