143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi spurninguna um það sem á sínum tíma var kallað tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla þá var það rætt við myndun ríkisstjórnarinnar 2009. Ég var hins vegar þeirrar skoðunar að ekki væri ráðlegt að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef þó velt því fyrir mér síðan hvort það hafi verið rétt niðurstaða hjá mér en ástæðan var einfaldlega sú að ég taldi erfitt að standa frammi fyrir því að setja þjóðina í þau spor að segja við já einhverju og skuldbindast þar með einhvers konar já-i fram í tímann og vera jafnframt nánast búin að setja samninganefndir í þá stöðu að vera með já „á bakinu“ og veikja þar með samningsstöðu okkar. Þetta er umræða sem var í gangi á sínum tíma. Ég féllst á þessi rök, hin voru líka sterk. Þetta var mín niðurstaða.

Hv. þingmaður spyr líka um afstöðu mína til orða hv. þm. Ögmundar Jónassonar um það hver spurningin eigi að vera. Það kemur fram í þingsályktunartillögu okkar, og í greinargerð með henni, að álitamál sé um hvað eigi að spyrja. Ég er hins vegar ósammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um hvað eigi að spyrja. Hann telur að beinlínis eigi að spyrja hvort nú þegar eigi að ganga inn. Ég tel að ekki eigi að gera það vegna þess að nægjanlegar upplýsingar liggja ekki fyrir, ekki er hægt að svara því á grundvelli þess sem við höfum í höndunum núna.

Mjög margir eru vissulega þannig innstilltir að segja: Ég get svarað því strax. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er einn af þeim og mjög margir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði eru þeirrar skoðunar, enda gerir flokkurinn sem stjórnmálahreyfing ráð fyrir þeirri niðurstöðu. Hins vegar finnst mér, og það er mín afstaða, að við verðum að hlusta á fjölmarga félaga okkar og kjósendur og stuðningsmenn (Forseti hringir.) sem eru þeirrar skoðunar að lýðræðisrökin vegi þar þyngra og öll kurl þurfi að vera komin til grafar áður en spurningin er borin upp.