143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:17]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Nú hafa margir stjórnarandstöðuþingmenn velt upp spurningum varðandi ummæli einstakra ráðherra í kosningabaráttunni. Þá held ég að það sé í góðu lagi að velta því upp hver stefna Vinstri grænna var fyrir kosningarnar 2009. Flokkurinn vann nokkuð góðan sigur, sérstaklega í Norðausturkjördæmi, og stefnan var algjörlega sú að ganga ekki í Evrópusambandið. Mér heyrist hv. þingmaður hafa verið á annarri skoðun en stefnan snerist um.

Ég hef sagt að ég sé reiðubúinn að skoða tillögu Vinstri grænna; reyndar allar tillögur, ég held að þær eigi allar að vera uppi á borðum. Ef þingflokkurinn kemur sér ekki saman um spurningu, hver á að taka ákvörðun um hver hún verður endanlega? (Gripið fram í.) — Nei, bíðið við. Eigum við að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hver spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB eigi að vera? Við verðum að hafa þetta á hreinu. Menn tala mjög fjálglega, að mínu mati, um að menn verði að svara því hvort þeir vilji fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en láta það svo ekki skýrt í ljós hver spurningin eigi að vera. Í mínum huga skiptir það mjög miklu máli. (SSv: Að sjálfsögðu.) Ég held að við verðum að fara að beina umræðunni í þá átt, allir flokkar.

Píratar og Björt framtíð þurfa líka að skoða þingsályktunartillögu sína og athuga hvort hún sé tæk til efnismeðferðar, sérstaklega í ljósi þess að hún brýtur í bága við reglur sem voru settar af fyrrverandi ríkisstjórn og Alþingi samþykkti samhljóða, þrír sátu reyndar hjá.