143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var sannarlega snúin staða sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð var í vorið 2009. En um leið var það líka þannig að fyrir lá landsfundarsamþykkt um mikilvægi aðkomu þjóðarinnar hvað varðaði þessa spurningu. Vegna þess hve flókin staðan var, flokkslega, fyrir okkur var mikilvægt að varða hverja ákvörðun í því máli flokkslegum samþykktum og það var gert. Flokksráð kom því að öllum ákvörðunum í þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvort ekki hefði verið bragur á því ef það hefði verið gert að því er varðar þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra núna, sem er tillaga um slit, að sú tillaga hefði verið bökkuð upp af flokksstofnunum og grasrót Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Það mætti segja mér að framvindan hefði þá orðið önnur (Gripið fram í: … mjög skýrt.) vegna þess að það lá ekki fyrir. Ef marka má viðbrögð úr baklandi beggja flokka þá er stuðningurinn vægast sagt gloppóttur bak við tillöguna.

Mig langar líka að nefna, vegna þess að hv. þingmaður segir að við eigum að tala skýrt um það hver spurningin eigi að vera, að þarna verðum við að hafa kjark til að rökræða. Ég vænti þess að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, sem er orðinn holdgervingur friðarins í þingsölum vegna þess að hann leiddi náttúruverndarlög í sáttafarveg, skilji að við þurfum að hafa þolgæði til að hlusta eftir ólíkum sjónarmiðum eins og gert var í þeirri nefnd og leiða þau til lykta í einhverjum þeim farvegi að við færum spurninguna með víðtækum, skynsamlegum og yfirveguðum hætti til þjóðarinnar, þar sem hún á heima.