143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Síðasti ræðumaður gat þess hve mikilvægt er að hlýða á ólík sjónarmið. Hér eru sjónarmið sem alls ekki koma fram í umræðunni og ég ítreka þá spurningu hvar hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru, þau Bjarni Benediktsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Illugi Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Kristján Þór Júlíusson. Öll lofuðu þau kjósendum afdráttarlaust hlutum í því máli sem hér er til umfjöllunar. Þetta er stærsta tillaga sem þessir hæstv. ráðherrar hafa nokkru sinni flutt á Alþingi Íslendinga, þjóðþinginu sjálfu. Þau eru fjarverandi alla umræðuna og enginn ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur haldið svo mikið sem eina ræðu við alla umræðuna til að skýra sjónarmið sín. Það er auðvitað algerlega óboðlegt og það væri mjög til að greiða fyrir þingstörfum ef hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins mundu koma hingað og taka þátt í umræðunni og ekki síst ef þeir tækju undir (Forseti hringir.) með hæstv. heilbrigðisráðherra frá því í morgun, að ekki komi til greina að afgreiða þessa tillögu óbreytta.