143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir það með öðrum þingmönnum að tími sé kominn til að stjórnarliðar fylli hér sali. Ég sé að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason er kominn í hliðarsal og hann hefur eflaust margt til málanna að leggja. Það hefði verið gott að stjórnarliðar sem hafa mikla sannfæringu fyrir því að slíta beri þessum viðræðum hér og nú og hafa kallað yfir sig óánægju þjóðarinnar yfir að fá ekki lýðræðislega aðkomu að málinu taki umræðuna við okkur hér inni. Ef þetta er svo brýnt mál, manni skilst að þannig sé forgangsraðað að þetta mál er sett í forgang fram yfir önnur brýn mál sem ríkisstjórnin vill koma fram með fyrir vorið, hljóta menn að hafa áhuga á að fylgja því eftir í rökræðunni hér og nú.

Þess vegna geri ég kröfu um að ekki aðeins ráðherrar heldur allir stjórnarliðar með tölu komi (Forseti hringir.) og rökræði þessi mál hér og nú.