143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:40]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ekki stóð á áhuga þingmanna og núverandi hæstvirtra ráðherra Sjálfstæðisflokksins að segja kjósendum hug sinn fyrir kosningar. Nú erum við með mál á dagskrá sem er algerlega þvert á þá stefnu sem þeir boðuðu. Af þeim sökum er eðlilegt að ætlast til þess að þeir séu viðstaddir við umræður hér með tilliti til þess sérstaklega að við erum stór hópur þingmanna í minni hluta sem viljum ekki að þetta mál fái afgreiðslu nefndar af því að við teljum það ekki eiga erindi þangað.

Síðan vil ég segja um óundirbúinn fyrirspurnatíma að hann er til þess ætlaður að þingmenn geti sinnt eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdarvaldinu en ekki til að ræða þau mál sem eru á dagskrá síðar í þinginu þann daginn. Ef það er einhver nýlunda (Gripið fram í.) að ráðherrar ætli eingöngu að taka þátt í umræðum í óundirbúnum fyrirspurnum skulum við leggja það fyrir þingskapanefnd. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)