143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það vill loða við í umræðunni að við sem aðhyllumst það að ljúka aðildarsamningum séum með einhvern glampa í augum og gerum okkur ekki grein fyrir því og teljum að allt verði svo gott við það að ganga í Evrópusambandið. Nú vill þannig til að ég bý í þessu landi. Ég finn fyrir djúpri ættjarðarást. Ég vil allra síst skaða grundvallaratvinnugreinar landsins en mig langar til að kanna hvort við gætum ekki bætt umhverfið sem við búum í, hvort við gætum ekki búið við stöðugri gjaldmiðil. En ég ætla ekki að draga dul á það, virðulegi forseti, að ég tel líka ágætt að losa Ísland undan oki ákveðinna sérhagsmuna. Ég held að við ættum kannski að fara að taka umræðu enn frekar í þá átt varðandi Evrópusambandið hvaða hagsmunir (Forseti hringir.) eru gegn því að klára aðildarviðræðurnar. Það er spurningin sem við ættum kannski að ræða hér þennan daginn.