143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi fylgi Bjartrar framtíðar. Samkvæmt könnun er hann næststærsti flokkur á Íslandi og það er ánægjulegt. (LRM: Þið þurfið ekkert að hafa fyrir því.) Við bara höldum okkar striki og reynum að tala af skynsemi. Mér finnst þetta frámunalega vitlaus leiðangur af hálfu ríkisstjórnarinnar og ég var að reyna að útskýra í ræðu minni í hvaða ljósi ég sé þann leiðangur, hvað útskýrir í mínum huga ákafann; það eru tilteknir sérhagsmunir.

Ég hef aldrei talið og tel ekki að Evrópusambandið sé einhvers konar ávísun á himnasælu eða þar sé allt gull sem glóir eða hvernig það er orðað eða til sé einhver töfralausn. Við tölum um almannahagsmuni og sérhagsmuni, sérhagsmunir eru auðvitað út um allt, allir hafa sérhagsmuni að sjálfsögðu. Við útilokum þá ekki en eiga þeir að ráða pólitískri ákvarðanatöku? Upp að hvaða marki eiga þeir að ráða? Það skiptir máli hvaða kringumstæður við búum til. Það er algert leiðarminni í Evrópusambandshugsjóninni að búa til sameiginlegan grundvöll fyrir ólíka hagsmuni, fyrir ólíka einstaklinga, fyrir ólík fyrirtæki, fyrir ólíkar þjóðir til að blómstra. Hugmyndafræðin gengur m.a. út á það að maður minnkar áhrif þjóðríkja og eykur áhrif einstaklinga og samtaka þeirra á sameiginlegum grundvelli sem heitir opinn markaður. Við höfum hins vegar skapað þær kringumstæður á Íslandi að hér er efnahagslíf með sveiflukenndri krónu sem hefur mestmegnis verið hægt að stjórna undanfarna áratugi og krónunni hefur verið að mestu verið stjórnað í þágu tiltekins útflutningsatvinnuvegar með ákveðnum röksemdum en í þágu sjávarútvegs. Í því hafa fjármunir verið teknir frá almenningi, það hefur skapað verðbólgu, það hefur hækkað vexti og það hefur hækkað verð á neysluvörum. (Forseti hringir.) Þannig hafa fjármunir í gegnum tíðina verið færðir frá hinum mörgu til hinna fáu (Forseti hringir.) þannig að við höfum búið til samfélag sem hyglir sérhagsmunum og við þurfum að komast út úr því.