143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi gjaldmiðilinn okkar þá langar mig að heyra aðeins svör hv. þingmanns varðandi það hvernig hann telur að gjaldmiðillinn hafi þá, eins aumur og hann er talinn vera, hjálpað okkur við að komast út úr kreppunni. (Gripið fram í.) Nú erum við stödd hér og við erum að reyna að ná einhverri lendingu í þessu máli og sátt á milli stjórnarflokkanna hér á þingi um meðferð málsins og viljum að hlustað sé á þjóðina sem kallar eftir lýðræðislegri aðkomu.

Við Vinstri græn höfum lagt fram tillögu um að gert verði hlé á þessum viðræðum og þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um framhald viðræðna á kjörtímabilinu. Við teljum þetta vera viðræðugrundvöll fyrir sátt í málinu. Telur hv. þingmaður að hægt sé að ræða framhaldið út frá þessari tillögu? Einhvers staðar verða menn að mætast ef menn ætla að reyna að leysa þetta með einhverjum hætti. Ég vil gjarnan heyra viðhorf hv. þingmanns varðandi það.