143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[15:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði hlakkað mjög til að hlýða á hv. þingmann, eins og kom fram í orðum mínum undir liðnum um fundarstjórn forseta áðan, en ég verð að segja að ég varð svolítið hissa þegar ég heyrði nálgun hv. þingmanns. Björt framtíð hefur að mínu mati reynt að marka sér sess sem flokkur nýrra tíma, ætlað sér að vera með öðruvísi umræðu en gamla pólitíkin. Þess vegna kom mér á óvart að ræða hv. þingmanns snerist í megindráttum um samsæriskenningu. Eru hv. þingmaður og Björt framtíð einfaldlega gamaldags samsæriskenningapólitíkusar? Ég var hissa af því að ég hélt að það væri ekki þannig.

Við höfum ólíkar skoðanir á hlutunum og við eigum að takast málefnalega á um efni málsins. Hér hefur verið talað mikið um að reyna að finna sátt, það hefur verið talað um að eiga lýðræðislega umræðu og þess vegna frábið ég mér þá umræðu af hálfu hv. þingmanns að við séum að sinna einhverjum samsæriskenningabeiðnum utan úr samfélaginu. Það er einfaldlega rangt og hefur komið fram í umræðunni og ekki síst í máli hæstv. utanríkisráðherra.

Við höfum auðvitað ólíka sýn á málið. Ég hef þá sannfæringu að rétt sé að slíta viðræðunum við Evrópusambandið. Ég hef haft þá skoðun mjög lengi. Ég hef haft þá skoðun frá því að fyrrverandi ríkisstjórn með stuðningi hv. þingmanns fór í þá vegferð á röngum og mjög veikum forsendum. Það er mín skoðun og ég byggi hana á mínu mati, heildarmati á því hvernig við komum best til móts við hagsmuni íslenskrar þjóðar. Það er mat mitt að við eigum hvorki að eyða tíma né peningum Íslands í að halda áfram þessu ferli. Fyrrverandi ríkisstjórn hafði tæp fjögur ár til að klára þessa samninga, að minnsta kosti hálf ríkisstjórnin hafði sannfæringu fyrir því á þeim tíma að rétt væri að ganga í Evrópusambandið, en hún náði hins vegar ekki að klára verkefnið.