143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[15:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi finnst mér það ekki eiga að snúast um skoðun hvort hag Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins eða ekki, mér finnst það eiga að vera mat, mér finnst það eiga að vera greining. Mér finnst að það eigi að byggja á upplýsingum. (Gripið fram í.) Ég spurði m.a. einn hæstv. ráðherra að því hvaða mat lægi að baki þeirri fullyrðingu að hag Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins. Ég hef ekki séð margar skýrslur skrifaðar af aðilum á Íslandi sem komast að þeirri óyggjandi niðurstöðu, ég hef ekki séð það. Ég staldra við þá fullyrðingu. Mér finnst að við verðum að sjá samning til að geta myndað okkur rökstudda skoðun á því hvort hag Íslands sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins.

Um gang viðræðnanna á síðasta kjörtímabili — mér fannst viðræðurnar ganga vel. Mér finnst það ágætlega rakið í skýrslu Hagfræðistofnunar að verulegur árangur náðist og hefur náðst í landbúnaðarmálum. Ég held að það verði erfitt (Forseti hringir.) ef við hefjum viðræðurnar aftur eftir að við slítum þeim að ná viðlíka árangri og skilningi aðildarríkjanna á sérstöðu okkar í landbúnaði og sérstöðu (Forseti hringir.) okkar í sjávarútvegi sem við höfum þó náð á þessu tímabili. (Gripið fram í.)