143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

makrílviðræðurnar, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[15:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að hafa brugðist svo fljótt við og komið hingað og gefið okkur ágæta munnlega skýrslu um ferðalag okkar, sameiginlegt, í þessu máli. Ég verð að segja að niðurstaðan eins og hún hefur orðið eru mér mikil vonbrigði. Ég get ekki tekið undir með hæstv. ráðherra þegar hann segir að það sé ofsagt að komið sé í bakið á Íslendingum með þessu þríhliða samkomulagi. Að minnsta kosti deili ég því með hæstv. utanríkisráðherra að ég varð gjörsamlega og öldungishlessa í gær þegar þessar fréttir bárust. Ég tók eftir því að hæstv. utanríkisráðherra hafði fram eftir degi það eitt að segja að þetta væri óstaðfestur sögusveimur, en það kom á daginn að þetta var eigi að síður rétt. Ég get ekki annað en sagt að ég tel að að minnsta kosti á þessum lokaspretti hafi ekki verið nægilega vel á verði staðið af hálfu Íslands. Mér finnst það algjörlega með ólíkindum að þegar samkomulag er gert með þessum hætti að þar skuli okkar mesta vinaþjóð, Færeyjar, leika lykilhlutverk án þess að hæstv. ríkisstjórn viti nokkuð af því.

Það kom fram í máli hæstv. sjávarútvegsráðherra að fram hefði komið að Norðmenn hefðu á einu stigi þessara viðræðna reynt með klækjum og lævi að koma króki í Færeyinga og fá þá til að gera eins konar baksamkomulag um að meina Íslendingum um aðgang að færeyskri lögsögu. Þetta kom upp í hv. utanríkismálanefnd, okkur var gert viðvart um þetta. Ég og fleiri kröfðumst þess þá að hæstv. utanríkisráðherra hristi hramm fyrir hönd Íslands og mótmælti þessu formlega. Það gerði hæstv. ráðherra ekki. Það var alveg ótrúlegt að hlusta á það hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hér áðan — jú, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hefðu hringt í norsk flokkssystkin sín og hæstv. sjávarútvegsráðherra í sinn kollega. En sá maður sem á og hefur formlega stöðu til að mótmæla formlega fyrir hönd Íslands, hann er sá eini sem ekki gerði það. Það er þeim mun alvarlegra að þann dag sem okkur var gert uppskátt um þetta í nefndinni var utanríkisráðherra Noregs svo að segja í kjöltu hæstv. ráðherra hér á Íslandi. Þetta er alveg með ólíkindum.

Það að Íslendingum barst af því njósn eða höfðu upplýsingar um að Norðmenn væru með þessi klækjabrögð uppi sem við í nefndinni kröfðumst að yrði mótmælt af hálfu hæstv. utanríkisráðherra átti auðvitað að gefa tilefni til þess að hæstv. utanríkisráðherra og utanríkisþjónustan fylgdist með því hvort sá þráður sem þar var bersýnilega tekinn að myndast yrði spunninn áfram. En það gerðist ekki. Hæstv. utanríkisráðherra vissi ekkert af málinu. Ég verð að segja það að þarna finnst mér að sá sem var við stýrið hafi sofið á vaktinni.

Svo vil ég segja algjörlega skýrt að ég hef verið sáttur við málflutning hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessu máli. Ég tel að hann hafi haldið vel á málinu og ég er sérstaklega ánægður með það hvernig hann hefur staðið mjög skýrt á grundvallarreglum um sjálfbærni. Sömuleiðis vil ég segja að ég tel að samninganefndin okkar hafi staðið sig listilega vel, svo vel að þegar upp var staðið og ferðalagi lokið í þessu máli — sem hófst í desember 2012 — í Edinborg fyrir nokkrum dögum þá var það algjörlega ljóst að það voru aðrir en Íslendingar sem sátu uppi með svarta-péturinn. Þá var það yfirlýsing Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, sem sagði algjörlega skýrt að samningar hefðu ekki tekist vegna þess að Norðmenn hefðu hafnað því. Þess vegna er það svo grátlegt að viku síðar skulum við vera komin í þessa stöðu.

Þetta getur haft tvenns konar alvarleg áhrif fyrir Íslendinga, og ég er ekki sammála því þegar ég heyri hæstv. ráðherra segja að Ísland sé í góðri stöðu. Þessir tvær þættir eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi eru allar líkur á því að offramboð verði á mörkuðum fyrir makríl. Það hefur áhrif á greinina hér heima. Í annan stað hefur það legið fyrir nokkuð lengi að það sem vakir fyrir Norðmönnum er að veiða stofninn niður. Þeir vita að sagan sýnir að makríll kemur hingað stopult, kannski á hálfrar aldar fresti, eins og Árni Friðriksson lýsti fyrir árið 1900, og eins og við sáum í lok síðustu heimsstyrjaldar, og fer svo aftur. Þeir eiga ekkert á hættu vegna þess að makríllinn keppir við síldina heima hjá þeim sem er á niðurleið. Þeir fá bara uppsveiflu í síldinni sem við sjáum í miklu takmarkaðri mæli. Þeir eru því bókstaflega talað að reyna, með því að knýja menn til ofveiði á stofninum, að veiða stofninn niður til að koma í veg fyrir að hann komi hingað. Þess vegna er þetta svo alvarlegt.

Ég tel í þessari stöðu gagnvart Færeyingum að þá verðum við að bjarga því sem bjargað verður og reyna að koma í veg fyrir að þeir komi með samningum í veg fyrir að Íslendingar fái aðgang að lögsögu Færeyinga. Það hefur verið mjög mikilvægt að hafa þann aðgang síðla vertíðar þegar fiskurinn er orðinn sílspikaður og verðmætastur. Mér finnst málið það þungt og alvarlegt að ég tel að bæði hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra eigi að gera för sína til Færeyja og ræða við þá. Við erum vinaþjóðir og höfum alltaf stutt hvor aðra. Þeir komu okkur til hjálpar í bankahruninu. Þegar þeir lentu í sínu hruni gáfum við þeim varanlega um aldur og ævi 30 þús. tonn af loðnu, sem þeir njóta enn, og höfum veitt þeim aðgang að lögsögunni hjá okkur. Ég tel að við þessar aðstæður verðum við að kalla til vináttu og frændsemi, við eigum ekki að láta svona viðgangast. Við verðum að stappa harkalega niður fæti gagnvart Norðmönnum. Það er ekki hægt að láta þá komast upp með svona framferði. Hæstv. utanríkisráðherra verður að taka á sig rögg, hann verður að stappa niður fæti formlega fyrir hönd Íslands.