143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

makrílviðræðurnar, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[15:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér er ekki ljóst og ég tel ekki alveg tímabært, að minnsta kosti ekki fyrir sjálfan mig, að átta mig á því nákvæmlega hvað hefur klikkað hérna. Það er auðvelt að vera reiður núna og skiljanlegt, svo að meira verði ekki sagt, vegna þess að þessi framkoma gagnvart Íslandi er ekki í lagi. Það væri auðvelt að henda út ásökunum um það hver hefði átt að gera eitthvað betur eða hver hefði átt að gera eitthvað annað, en ég tel það ekki tímabært fyrr en við höfum fengið að ræða þetta mál aðeins betur og allar upplýsingar sem varða það hafa komið fram.

Miðað við færeyska fjölmiðla er þar fagnað mjög, skiljanlega, þetta er greinilega sigur fyrir Færeyjar. Ég tel fullt tilefni til að hæstv. ráðherrar fari í formlega heimsókn til Færeyja til að ræða þetta mál þar sem Færeyjar eru, þori ég að fullyrða, ein okkar mesta vinaþjóð. Ég lít oft á Færeyjar á þann veg að við eigum að koma fram við þær eins og við ætlumst til að stærri þjóðir komi fram við okkur.

Þetta eru samt mikil vonbrigði, sérstaklega frá svona vinum. Eins og einhver sagði er stundum erfiðara að fyrirgefa vini en óvini. Maður gerir ráð fyrir því að þjóðir eins og Noregur, sem hafa hagað sér svona í fortíðinni, hagi sér kannski svona. En maður gerir ekki ráð fyrir því frá Færeyjum og því er það alveg sérstaklega sárt.

Svo þurfum við að mótmæla gagnvart Evrópusambandinu, svo mikið er augljóst.

Þótt ég taki undir það sem áður hefur verið sagt af öðrum hv. þingmönnum vil ég líka nefna að við verðum að huga að því að ganga ekki af göflunum í veiðum sjálf. Við megum ekki láta þetta verða tilefni til þess að láta náttúruna borga reiði okkar gagnvart öðrum þjóðum.

Að því var látið liggja að 11,9% hlutdeild væri í höfn sem er auðvitað drjúgur hluti af því sem eftir stendur. En gerum okkur enn fremur grein fyrir því að jafnvel ef við veiddum ekkert, sem ég er ekki að leggja til, væru þessir þrír aðilar, Færeyjar, Noregur og Evrópusambandið, samt að stunda ofveiðar ef miðað er við vísindalega ráðgjöf. Þótt ég taki undir með fyrri ræðumönnum um næstu skref vil ég ljúka ræðu minni á því að minna fólk á að við getum rifist við Norðmenn, Færeyinga og vissulega Evrópusambandið en við getum ekki rifist við stærðfræðina. Með því legg ég ekki til uppgjöf heldur eingöngu að við höfum það í huga að einn deiluaðilinn er náttúran sjálf.