143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

makrílviðræðurnar, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[15:48]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Í gærkvöldi bárust þær upplýsingar að Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar hefðu gert samkomulag um magn og skiptingu makrílafla án aðkomu Íslands. Umsamið aflamagn er langt umfram veiðiráðgjöf. Ráðgjöf vísindamanna er tæp 900 þús. tonn en samningurinn leiðir til þess að ríkin þrjú taka sér 1.047 þús. tonn og við það mun bætast hlutdeild Íslands, Grænlands og Rússlands.

Í viðræðunum lögðu Íslendingar ávallt mikla áherslu á að stuðst yrði við vísindalega ráðgjöf og að veiðarnar yrðu sjálfbærar. Ég er mjög ánægður með þá áherslu og tel að Ísland eigi ekki að vera aðili að samningum sem byggja á veiði umfram ráðgjöf vísindamanna. Við megum ekki gefa afslátt af stefnu okkar um sjálfbærar veiðar. Evrópusambandið hefur í sínum skýrslum viðurkennt að um 80% af stofnum í lögsögu þess eru ofveidd og að um 30% fiskstofna eru við hættumörk.

Staðan er sú þrátt fyrir að Evrópusambandið hafi í áratugi talað um að auka sjálfbærni, vernda fiskstofna og draga úr brottkasti.

Makrílsamningurinn er enn eitt dæmið um að Evrópusambandið meinar ekkert með þessum fagurgala um sjálfbærni. Við eigum ekki að gerast þátttakendur í ósjálfbærum veiðum Evrópusambandsins og það hlýtur að vera augljóst þeim sem íhuga aðild að Evrópusambandinu að því er ekki treystandi fyrir auðlindum í okkar lögsögu. Efndir hafa ekki fylgt fögrum fyrirheitum hjá sambandinu.

Með þessum samningi um ofveiði á makrílstofninum hefur Evrópusambandið sýnt sitt rétta andlit. Talsmenn Evrópusambandsins ásamt breskum og írskum stjórnvöldum hafa engu að síður ítrekað sakað Íslendinga um óábyrgar veiðar á makríl og jafnvel hótað okkur viðskiptaþvingunum.

Íslensk stjórnvöld þurfa að andmæla öllum slíkum rangfærslum af krafti en halda á lofti gæðum og sjálfbærni íslenskra sjávarafurða.