143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

makrílviðræðurnar, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[15:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi taka undir þakkir til hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir þá stefnumörkun sem hann hefur haft í þessum viðræðum. Ég er sammála því að afstaða Íslands þurfi að byggjast á hugmyndinni um sjálfbærni veiða og það var mjög mikilvægt að þannig væri á málum haldið. Það er líka mikilvægt að taka undir það sem hér hefur verið sagt, að við séum ósátt við niðurstöðuna frá þessum þremur aðilum, að þeir skuli með þessum hætti gera samning um veiðar umfram vísindalega ráðgjöf. Það er ámælisvert af hálfu þeirra allra.

Það setur okkur hins vegar í verulegan vanda vegna þess að samkvæmnin í málflutningi okkar verður erfið í útfærslu við þessar aðstæður. Nú þegar hafa aðrir aðilar ákveðið að veiða meira en heildarráðgjöf hljóðar upp á og það verður ekki einfalt að finna leiðina áfram við þær aðstæður.

Virðulegi forseti. Við verðum að varast það að standa hér og klappa hvert öðru á bakið yfir því að við höfum staðið okkur vel í þessu máli. Það er ekki niðurstaðan sem blasir við núna, við höfum verið skilin eftir. Þó að við höfum haft góðan málstað er það áfellisdómur yfir okkur að við höfum ekki náð að vinna honum fylgi. Höfuðverkefni sjálfstæðrar þjóðar er að vinna málstað sínum fylgi, mynda bandalög við önnur ríki, bindast samtökum með einhverjum hætti til að koma málstað okkar áfram. Það hefur ekki tekist í þessu máli. Það hefur satt best að segja mistekist hrapallega.

Það má setja fram margar spurningar en hin augljósa spurning er: Hvers vegna voru íslenskir ráðamenn teknir algerlega í bólinu? Hvers vegna fór íslenska sendinefndin heim frá Edinborg í síðustu viku þegar ljóst var að Færeyingar voru um kyrrt? Hvers vegna var ekki samtal milli íslenskra ráðherra og erlendra kollega þeirra? Hvers vegna segir utanríkisráðherra síðdegis í gær, þegar umræða byrjar um mögulegan samning, að hér sé um að ræða sögusagnir? Hvers vegna var ekki meira vitað? Hvers vegna voru menn ekki betur á tánum? Það blasir líka við að það var umræða í færeyskum miðlum í síðustu viku um draugagang í málinu.

Virðulegi forseti. Enn og aftur felst hagsmunagæsla fyrir sjálfstæða þjóð ekki í því að hafa rétt fyrir sér, halda sig heima og fá engan hljómgrunn fyrir sjónarmið sín. Hagsmunagæsla fyrir sjálfstæða þjóð felst í því að vinna málstað okkar fylgi. Það gerum við með kröftugri málafylgju. Það gerum við með því að mynda bandalög og brjóta íslenskum hagsmunum leið með sjálfstrausti, ekki með því að tala ekki við aðra. Það er áhyggjuefnið við þá stöðu sem upp er komin. Við vorum tekin í bólinu því að íslenskir ráðamenn voru ekki undirbúnir.