143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

makrílviðræðurnar, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[15:57]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þakkir fyrir að fá tækifæri til að ræða þetta mál hérna í dag. Mig langar að beina sjónum að öðru efni sem við erum að ræða hérna í dag sem mig langaði að tengja við þetta þannig að við fengjum aðeins stærri sýn. Sem tiltölulega nýr þingmaður, og varaþingmaður, hef ég ekki verið inni í smáatriðum í þessari makríldeilu þó að ég hafi heyrt af henni og sett mig inn í hana eins mikið og hægt er, en þetta fær mig aðeins til að hugsa um nýlega stefnu ríkisstjórnarinnar í samskiptum við Evrópu. Þar er lögð höfuðáhersla á að styrkja og efla samband okkar við Noreg og þær þjóðir sem við eigum í samskiptum við innan EES.

Ég verð að segja að það eru vonbrigði að heyra af þessum málalyktum, sérstaklega þar sem ég hafði skilið þetta, og fleiri hafa lýst hérna, að Noregur stæði svolítið í vegi fyrir því að fara þær leiðir sem við lögðum áherslu á. Þeir hafa greinilega fengið Færeyinga með sér í lið til að klára þessi mál og augljóslega Evrópusambandið líka. Það er mikið áhyggjuefni að meira að segja Færeyingar séu farnir að snúa við okkur baki. Ég spyr mig hvert við séum komin í samskiptum okkar við aðra og velti fyrir mér hvað við gerum næst.

Hvað eigum við að gera? Eigum við að halla okkur meira að Kanadamönnum, Rússum eða Kínverjum? Ég veit ekki alveg hvert við stefnum en það er frekar augljóst í mínum huga að þetta er mjög skýrt dæmi um að það þurfi að dýpka verulega samskipti okkar við aðrar þjóðir í Evrópu, sérstaklega smáþjóðir. Við þurfum að koma sjónarmiðum okkar og sérstöðu betur á framfæri þar og gera öðrum ljóst hvaðan við erum að koma og hvað það er sem við berjumst fyrir sem á að vera mjög mikilvægur og ábyrgur málstaður, nefnilega sjálfbærar veiðar.

Það hefur eitthvað verulega klikkað í þessu ferli. Ég tek undir það með öðrum sem hafa talað hér að það þurfi að fara ofan í það í utanríkismálanefnd og víðar eftir hvaða ferlum við erum að vinna. Ég mundi vilja fá frekari og betri skýringar á því, bæði hjá utanríkisráðherra og sjávarútvegsráðherra, hvort við höfum raunverulega sofið á verðinum og hvaða þýðingu það hefur fyrir okkur.

Ég mundi vilja sjá þetta verða okkur einhvers konar lærdómur í því hvernig við getum gert hlutina betur og hvað upp á vantar. Það sem ég tel að upp á vanti er að við stöndum, eins og í þessu máli, betur að vígi inn fyrir eitthvert borð og þar ætti það að vera Evrópusambandið og hin nýlega stefna ríkisstjórnarinnar að halla sér nær þeim þjóðum sem standa með okkur í EES. Þar hallar verulega á okkur. Þar erum við ein nánast með annarri sterkri stórþjóð, Norðmönnum. Ég held að við gætum náð betri niðurstöðu í svona málum með því að afla okkur styrks með öðrum smáþjóðum.