143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

fjarvera utanríkisráðherra.

[16:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við óskuðum eftir því í gær og aftur í morgun að hæstv. utanríkisráðherra gæfi skýrslu um stöðu þessara mála. Við gerðum engar athugasemdir við það þó að ríkisstjórnin teldi að sjávarútvegsráðherra ætti að gefa þá skýrslu, það er bara mat ráðherranna hvort þeir flytja skýrslur tveir saman eða hver þeirra gerir það.

Það kemur mér hins vegar á óvart að það hafi verið mat utanríkisráðherra að taka engan þátt í þessari umræðu heldur senda fyrir Framsóknarflokkinn óbreyttan þingmann. Það er auðvitað mat hæstv. utanríkisráðherra, ég get ekki knúið hann til að koma í ræðustól, en á opinberum vettvangi hafa komið fram ámæli um að utanríkisþjónustan hafi lesið um þessi stórtíðindi í íslenskum utanríkismálum í Morgunblaðinu og að þar hafi verið sofið á verðinum.

Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að gera skýra grein fyrir því. Úr því að það var ekki við þessa umræðu ættu viðbrögð hans við þeim ámælum samt að birtast á opinberum vettvangi, og því sem fram hefur komið í þessari umræðu, fyrst hann kaus að taka ekki þátt í henni, og gera grein fyrir því með hvaða hætti utanríkisráðuneytið mun beita sér í framhaldinu í málinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)